Dýravernd

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 12:54:37 (511)


[12:54]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að taka til athugunar í nefndinni það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, 2. þm. Vestf., hefur komið fram með í sambandi við hreindýrin. En þar sem hann var að nefna þann tíma sem hreindýr hefðu verið í umsjá manna og þann tíma sem minkurinn hefði verið undir manna höndum og hvað varðar breytingu frá því að vera villt dýr yfir í húsdýr eða frá því að vera húsdýr yfir í villt dýr, þá mælir maður þá breytingu ekki í almanaksárum. Það er kynslóðabilið og viðkoman hjá hverri dýrategund sem þar skiptir máli og kynslóðabil minksins og viðkoma minksins. En kynslóðabilið er miklu minna, miklu styttra heldur en hjá hreindýrinu og viðkoman miklu meiri þannig að breytingin yrði þar miklu hraðari. Það er þessi líffræðilega klukka sem þar er um að ræða. En umræðan um það hvernig hænsnfuglunum líður í búrinu og hvernig eldisfiskinum líður í kerinu er afar hættuleg og afar vandmeðfarin.
    Ég held að ég hafi áður sagt söguna af tilrauninni sem gerð var með hænsnfuglana, hvers konar botnlag ætti að vera í búrunum. Það var sett þrenns konar botnlag undir hænsnin og það var ákveðið að mælikvarðinn á það hvar skepnan vildi helst vera og hvert væri besta botnlagið, það færi eftir því hvar hænsnin verptu flestum eggjunum. Þetta voru mismunandi botnlög, veittu mismunandi stoð fyrir fæturna, en í upphafi tilraunarinnar voru allir sammála um það að gamla hænsnanetið væri örugglega verst. En þegar niðurstöðurnar komu í ljós þá verptu hænurnar langsamlega flestum eggjunum á gamla hænsnanetinu, öllum til mikillar furðu. Og þessi saga þarf að kenna okkur að við þurfum að fara mjög varlega þegar við metum það hvernig dýrunum líður á hverjum og einum stað. Ég held að besti mælikvarðinn sé hin líffræðilegu þrif skepnunnar, hvort afurðirnar sem þær framleiða eru góðar og nægilegar miðað við það viðurværi í fóðri sem dýrin fá.