Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 13:47:33 (515)


[13:47]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur hv. þm. Finnur Ingólfsson beint fyrirspurnum, að vísu ekki varðandi frv. sem er til umræðu heldur frumvörp sem ég boðaði að yrðu kynnt þinginu í frumvarpsformi á næstunni.
    Þau tvö frumvörp, sem hann tiltekur sérstaklega, annars vegar sem varðar Brunabótafélag Íslands og hins vegar brunatryggingar innan og utan Reykjavíkur eru mál sem eru til umfjöllunar í ríkisstjórn þessa dagana og mér þykir eðlilegast að svör við þeim fyrirspurnum sem fram komu, komi fram á þeim rétta vettvangi þegar frumvörpin verða kynnt. Ég vil hins vegar segja það eitt og vísa til framsögu minnar í þeim efnum að í öllum meginatriðum er sama hugsun framhaldandi hvað varðar brunatryggingar í Reykjavík og utan Reykjavíkur. Og þar er einfaldlega um að ræða ákvæði EES-samningsins sem ekki verður mjög auðveldlega fram hjá komist.
    Rétt í lokin varðandi Brunabótafélag Íslands. Eins og kom fram í framsögu minni þá er gert ráð fyrir því að um það verði stofnað sérstakt eignarhaldsfélag eins og ég gat um.