Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 13:48:51 (516)

[13:48]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Hæstv. forseti. Það er eins og fram hefur komið hjá hv. 11. þm. Reykv. ekki ástæða til að fjölyrða mikið um frv. Úr því hafa verið tekin nánast öll þau efnisatriði og reyndar öll sem ágreiningur stóð um, sérstaklega milli stjórnarflokkanna. Ég vildi leyfa mér að spyrja um eitt atriði í 1. gr. þar sem gert er ráð fyrir því í staflið a að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um þá sem stunda mega lækningar hér á landi samkvæmt 2. tölul. 1. mgr., eins og þar stendur. Ég spyr ráðherra að því hvaða ákvæði eru það sem átt er við og eiga að vera í reglugerðinni. Ég spyr eiginlega út frá lagatæknilegum forsendum því að ég vildi gjarnan vita og það væri ljóst í lögunum sjálfum, sem menn ætla að setja, hvaða atriði það eru sem menn eiga að hafa til hliðsjónar við reglugerðarsmíð. Mér finnst þetta vera óljóst og er almennt á því að lög eigi að vera ljós, einkum og sér í lagi þar sem fylla á út í lagarammann með reglugerð og þá eigi lagaramminn sjálfur að vera ljós. Ef einhver ákvæði á að fylla út nánar með reglugerðarsetningu, þá teldi ég eðlilegt að þessi ákvæði yrðu upp talin þannig að það væri ljóst hvaða ákvæði það eru sem menn eiga við í þessu sambandi.
    Oft hefur maður séð í reglugerðum að ráðherrar eru að koma þar fyrir allt öðrum atriðum en til stóð á sínum tíma með lagasetningunni þó að ég sé ekkert að halda neinu sérstöku fram um það í þessu tilviki, þá er þetta svona almenn spurning til ráðherranna.