Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 13:51:06 (517)

[13:51]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það er ekki beint andsvar við því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði hér áðan, heldur ætla ég fyrst og fremst og nota tækifærið og þann möguleika sem andsvarið gefur til þess að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. einnar spurningar sem ég gleymdi hér áðan og fram kom í hans máli. Hann lét þess getið að ef læknar hefðu sérfræðiviðurkenningu í EES-landi þá gilti hún einnig hér á landi. Það er að vísu alveg rétt og ekkert við það að athuga, undir það höfum við gengist. Hins vegar sagði ráðherrann, ef ég man rétt, að það væru miklu fleiri sérgreinar á Íslandi en í öðrum löndum. Þess vegna þyrfti að skoða það sérstaklega ef upp kæmi, eins og ég skildi hæstv. ráðherra, að læknar sem væru með sérfræðiviðurkenningu annars staðar og sæktust eftir henni hér en sérfræðigreinin væri ekki til hér á landi, hvernig að slíku yrði farið. Að því vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.