Almannatryggingar

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 14:19:49 (524)


[14:19]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka heils hugar undir lokaorð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur í þá veru að vitaskuld ber að stíga varlega til jarðar og gæta vel að þegar farið er höndum um jafnmikilvægan og í raun viðkvæman málaflokk og almannatryggingar og raunar félagsleg aðstoð eru. Það er ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar þegar fyrir liggur að á ekki löngum tíma hafa verið gerðar alls 60 breytingar á þessum lögum og vafalaust flestar til bóta. Þannig að ég vil árétta og undirstrika það sem ég sagði áður að hér er ekki síður um ákveðna lagahreinsun og aðlögun að breyttri framkvæmd að ræða í því frv. sem lagt er hér fram. Það er því laukrétt hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni að hér er að sönnu ekki, eins og hann gat um í upphafi sinnar ræðu, um að ræða byltingarkenndar hugmyndir á almannatryggingalöggjöfinni. Meginbreytingin er engu að síður sú, sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, að þar er skilið á milli bóta annars vegar og félagslegrar aðstoðar hins vegar. Ég er henni hins vegar ekki sammála um það að það gildi svo mjög ólík lögmál eða viðhorf til þess gagnvart þiggjendum bóta, annars vegar í almannatryggingakerfinu og hins vegar hvað lýtur að félagslegum bótum. Sem betur fer hefur orðið umtalsverð hugarfarsbreyting í þeim efnum í okkar samfélagi og það er held ég vel. Það er ekki og telst ekki sem betur fer almennt, vera á neinn hátt niðurlægjandi að njóta réttinda á hinum félagslega grunni. Þannig á það ekki að vera og þannig er það ekki í vaxandi mæli.
    Hvað varðar aðaláhyggjuefni tveggja síðustu ræðumanna og það er um þann þátt, sem er að sönnu veigaþungur, um tilflutning frá almannatrygginalöggjöfinni og yfir í frv. til félagslegrar aðstoðar að þá fjölgar heimildarákvæðum. Þau eru hins vegar alls ekki ný af nálinni því ég vil vekja á því athygli og árétta, sem raunar kom hér fram í framhjáhlaupi, að í almannatryggingalögunum hafa heimildarbætur verið mjög algengar og út af fyrir sig ekki staðið í nokkrum hvað varðar framkvæmdina. Þeim hefur, einkanlega á síðari árum, fjölgað mjög verulega. Það er einnig á það að benda í öllum þeim fjölmörgu breytingum sem átt hafa sér stað á löggjöfinni á umliðnum 20 árum, að þá hafa einmitt tekjutengingarþættir vaxið mjög og löggjöfin orðið mun ítarlegri. Að mínu viti, og er ég nú ekki að kalla til höfunda allra þeirra breytinga, hefur það nú engu að síður ekki leitt til þess að framkvæmdin hjá Tryggingastofnun ríkisins á greiðslu þessara bóta hafi orðið svo þung að til vansa hafi verið ellegar að rétthafar og bótaþegar hafi misst þann rétt sem þeir ella hefðu haft. Ég fæ því ekki séð að í því frv. sem hér er lagt fram né heldur því sem ég mun kynna á eftir um félagslega aðstoð, séu þær efnislegu breytingar sem snúa að skilyrðum og skilmálum bótaþega til þess að njóta réttmætra bóta, að hér séu tekin þau risaskref hvað varðar aukið eftirlit með rétti bótaþega, þ.e. rétt hans til að njóta bótanna, að stór munur sé á frá gildandi löggjöf um þessi efni. Þvert á móti hygg ég að þar sé ekki um stórar breytingar að ræða.
    Hvað varðar heimildarbæturnar þá vil ég segja það eitt að það eru engin áform um það í heilbr.- og trmrn. að leggja neinn þann bótaflokk af sem hér er tilgreindur. Þær hugmyndir eru alls ekki á ferð við framlagningu frv. um almannatryggingar né heldur frv. um félagslega aðstoð sem ég mun gera nánari grein fyrir hér á eftir.