Almannatryggingar

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 14:34:15 (529)


[14:34]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að drepa á. Sumt af því sem ég hafði hugsað mér að nefna er komið fram og ég vil taka undir t.d. athugasemdir um ferðakostnað vegna tannlækninga og tannréttingaþjónustu sem er mismunandi eftir búsetu og hefur ekki verið vilji til hjá núv. ríkisstjórn eða heilbrigðisráðherrum Alþýðuflokksins að rétta þar hlut landsbyggðarinnar. Þeir hafa sent þau skýru skilaboð til fólks úti á landi að það sé fólk í A-flokki sem búi hér þar sem tannréttingalæknarnir eru og svo í B-flokki úti á landi, því miður er það þannig. Það væri fróðlegt að fá upplýst hjá hæstv. núverandi heilbrrh. hvort hann hyggst breyta þessu. Beita sér fyrir því að jafna þennan mun frekar en verið hefur. Sem er nú varla hægt að tala um að menn hafi verið að jafna í þá veru. Þetta er það atriði sem ég tel rétt að undirstrika sérstaklega að menn verði að taka á.
    Það eru fleiri atriði sem mér finnst ástæða til að nefna og þá vil ég fyrst bera niður í 8. gr. frv. Það kemur greinilega fram þar að það er ekki réttur íbúanna úti á landi að eiga greiðan aðgang að umboðsmanni Tryggingastofnunar. Það er ekki tekið fram skýrum stöfum heldur er ákvæðið einungis þannig að Tryggingastofnunin skuli hafa umboðsskrifstofu utan Reykjavíkur og fer um staðarval eftir ákvörðun tryggingaráðs. Síðar segir að í sveitarfélagi þar sem ekki sé umboðsskrifstofa sé sveitarstjórn heimilt í samráði við tryggingaráð að tilnefna sérstakan trúnaðarmann. Rétturinn til þjónustunnar nær ekki til allra íbúa landsins. Og það er hlálegt í lagasetningu um stofnun eins og Tryggingastofnun ríkisins að hafa ekki skýlausan rétt, jafnan rétt fólks til þess að geta sótt til þessarar stofnunar.
    Þó ég hyggi að þetta kerfi sé að mörgu leyti sæmilega uppbyggt eins og það er í dag, þá stendur til að breyta því. Núv. ríkisstjórn hefur lagt til að breyta því, m.a. með breytingum sem hún hefur lagt til að verði á sýslumannsembættum. En sýslumannsembætti landsins gegna yfirleitt starfi umboðsmanns Tryggingastofnunar ríkisins. Þar sem menn ætla að leggja þau embætti niður eru menn að færa þessa þjónustu frá íbúum þar lengra í burtu, menn eru að minnka þessa þjónustu. Þetta heitir jafnaðarmennska eða hvað? Eða er Alþýðuflokkurinn gjörsamlega búinn að gefa landsbyggðina upp á bátinn? Er hann búinn að taka strikið á það að afmarka kosningafylgi sitt við höfuðborgarsvæðið og komast kannski helst ekki suður fyrir Hafnarfjörð? Ef það á að vera einhver meining í því að setja lög um rétt manna þá verða menn að gæta að þessum þáttum og verða að skoða 8. gr. laganna í ljósi þessa hugarfars og menn verða líka að skoða þær breytingatillögur sem ríkisstjórnin er nú að leggja fram í fjárlagafrv. í ljósi þessa frv.
    Þá vil ég vekja athygli á 3. gr. frv. sem er um skipun forstjóra og aðra tilgreinda embættismenn stofnunarinnar. Ég vil fyrst minna á það sem við alþýðubandalagsmenn höfum oft lagt til og stundum líka í frumvarpsformi hér á Alþingi, að afmarka skipunartímann. Og ég teldi það skynsamlegt og í anda þeirrar lagasetningar sem menn hafa verið að standa að að undanförnu, að afmarka skipunartíma forstjóra. Ég minni hæstv. heilbrrh. á það að samflokksráðherra hans, hæstv. félmrh., hafði það í frv. því sem síðar varð lög um Húsnæðisstofnun ríkisins að afmarka skipunartíma forstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins. Mér finnst það vera góð regla og mér finnst að það ætti að vera samræmi í þessu. Menn ættu að setja sams konar ákvæði varðandi forstjóra í þessari opinberu stofnun alveg eins og mér finnst að það eigi að vera í öðrum opinberum stofnunum. Þetta bið ég menn að taka niður hjá sér sem ábendingu.
    Þá lýsi ég dálítilli undrun yfir því hvernig á að skipa starfsmenn innan stofnunarinnar. Skýringin sem gefin er á 2. mgr. 3. gr. í frv. er engin, það er bara sagt: Þetta er svona í núgildandi lögum, punktur. Það getur svo sem verið alveg rétt en það dugar mér ekki. Ég vil fá að vita af hverju. Ég get skilið það að ráðherra eigi að skipa forstjórann. En ég á dálítið erfiðara með að skilja það af hverju ráðherrann á að fara að skipa einhverja embættismenn inni í stofnuninni. Er ekki best að skipstjórinn sé skipstjóri á skútunni, það sé enginn yfirskipstjóri eða utanborðsskipstjóri? Mér finnst að ef það er einhver forstjóri í stofnun þá eigi hann að sjá um mannaráðningar, annaðhvort hann sjálfur eða þá sú stjórn sem yfir stofnuninni er. Og ég spyr ráðherra að því: Hvers vegna á að hafa þetta ákvæði svona að ráðherra skipi skrifstofustjóra? Af hverju þá ekki að hafa deildarstjóra líka svo að ráðherra hafi nóg að gera, ef einhvern tíma skyldi svo og svo marga menn vanta störf, þá gæti það komið sér vel að ráðherra hafi það í hendi sinni að geta skipað í þessi störf.
    Ég held að við ættum að fara út úr þessu kerfi með allri virðingu fyrir Alþfl. sem ég vil helst ekki tala illa um af því að þetta á nú að heita að upplagi jafnaðarmannaflokkur og það er mér dálítið kær hugsun. Ég sé engin rök fyrir því að ráðherra sé að skipa skrifstofustjóra, tryggingafræðing, tryggingayfirlækni, aðalgjaldkera. Ja, það var nú aldeilis. Ráðherra á að skipa aðalgjaldkera í Tryggingastofnun. Það er eins gott að hann sé maður sem sé með prófið í lagi. Eða hvaða próf á hann að hafa, hæstv. ráðherra? Væri þá ekki nær ef ráðherra á að skipa aðalgjaldkera að það sé fjmrh. sem skipar hann. Það fara um 20--30 milljarðar um hendur þessa aðalgjaldkera þannig að það væri þá eðlilegt að fjmrh. réði þessu, virðulegi forseti. Og svo kemur hér það sem ég hafði bara ekki tekið eftir. Ráðherra á að skipa deildarstjóra þannig að það er

fátt orðið eftir sem ráðherra á ekki að skipa. Geta menn nú ekki fallist á það svona undir lok 20. aldarinnar að breyta þessu og fjarlægja ráðherra út úr skipunarvaldi stofnunarinnar í þessu tilliti? Ég held það. Og ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé mér í raun sammála þegar hann hugsar þetta mál því að ég býst við að hann hafi fengið þessa pappíra þannig í hendurnar að um þetta atriði hafi ekkert verið fjallað eða á það bent af þeim sem unnu að undirbúningi málsins.
    Þá vil ég minnast á 5. gr. frv. og aðeins minna hv. þm. á það að ég hef flutt hér tvö síðustu þing frv. um breytingu á skipan stjórnar Tryggingastofnunarinnar sem kölluð er tryggingaráð þannig að það verði 7 manna í stað 5. Ég bið menn að hafa það hjá sér og muna eftir því. Þar hef ég lagt til að hagsmunaaðilar komi að tryggingaráði, Samtök aldraðra annars vegar og Samtök öryrkja og fatlaðra hins vegar. Fyrir því eru eðlileg og skiljanleg rök og fyrir því eru líka fordæmi í lagasetningu sem óþarft er að tíunda hér. En þetta nefni ég til að minna menn á það atriði.
    Það sem mér finnst svona dálítið einkennilegt að sjá í frv. sem á að verða burðarásinn í almannatryggingakerfinu íslenska, þessu réttarkerfi þjóðfélagsins, það er gildistökugreinin, 67. gr. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Lög þessi öðlast gildi um leið og EES-samningurinn.`` Er nú ekki hægt að hafa þetta aðeins öðruvísi þannig að allur þessi lagabálkur sé ekki allur hengdur til Brussel. Það hlýtur að vera hægt að setja löggjöf um þetta réttarkerfi á tryggingarsviði í íslensku þjóðfélagi án þess að hengja það við einhvern EES-samning þó að einhver tiltekin ákvæði lagabálksins séu tengd þar við.
    Í 66. gr. finnst mér vera ákvæði sem er umhugsunarefni en það er heimildargrein fyrir ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar.``
    Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir þetta í náinni framtíð eða fjarlægri framtíð? Þýðir þetta það að við erum að veita ráðherra heimild til að setja eða gefa út sem lög á Íslandi einhverjar breytingar sem menn gefa út í löndum án þess að það þurfi nokkurn tíma að koma hingað inn á Alþingi? Og viljum við hafa þetta svoleiðis? Viljum við ekki einu sinni hafa stoppistöð hér á Alþingi í lagasetningunni? Ég held að þetta sé mikið umhugsunarefni.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, taka undir það sem hér hefur verið rætt um félagslega aðstoð og þessa skiptingu á þessum bótaflokkum upp í tvö frumvörp. Það kemur ekkert fram um það hvernig menn ákvarða þessa skiptingu, en það er bara einfaldlega vísað í reglur Evrópubandalagsins. Eru það þær sem eiga að fara að ráða því hvernig við skiptum bótaflokknum hjá okkur í lög? Mér finnst það mjög ankannalegt og ég set spurningarmerki við það, bæði þessa forsendu fyrir skiptingunni og eins líka skiptingunni sjálfri. Af hverju eru mæðralaun félagsleg aðstoð? Mér finnst ekkert vera sjálfsagt að þau séu einhver félagsleg aðstoð. Og af hverju er eitthvað annað sem er nefnt í hinu frv. ekki félagsleg aðstoð? Ég næ ekki alveg þræði í þessu.
    Svo vil ég að endingu, virðulegi forseti, aðeins tala um þessi orð ,,félagsleg aðstoð.`` Er þetta einhver aðstoð eða félagsleg aðstoð og hver er munurinn á því? Mér finnst þetta vera frv. til laga um samfélagslegan rétt ef eitthvað er. Menn eru að ræða hérna um rétt einstaklinga til ákveðinna hluta frá samfélaginu. Nú heitir allt orðið félagslegt eitthvað og mér finnst að menn mættu gjarnan þurrka það orðskrípi út og sérstaklega finnst mér það meinloka í hinu frv. svo að ég leyfi mér að syndga upp á það, virðulegi forseti, að tala um aðstoð í fyrirsögn þess frv. Í mínum huga er ekki um aðstoð að ræða.