Matvæli

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 15:07:23 (536)

[15:07]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um matvæli. Frv. er lagt fram öðru sinni en það var lagt fram til kynningar á síðasta þingi. Frv. er óbreytt frá því að það var lagt fram síðast að öðru leyti en því að breytt hefur verið orðalagi 2. mgr. 19. gr. frv. í samræmi við tilmæli frá menntmrn.
    Frv. sem liggur fyrir var samið af nefnd sem Guðmundur Bjarnason, þáv. heilbr.- og trmrh., skipaði í ársbyrjun 1989. Nefndinni var falið að gera tillögur á nýjum matvælalögum sem áttu að koma í stað laga nr. 24/1936, um tilbúning og dreifingu matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara, svo og annarra síðar tilkominna laga er tengjast framleiðslu, dreifingu, sölu og eftirliti með matvælum. Nefndinni var sérstaklega ætlað að kanna löggjöf Norðurlanda og athuga hvort og með hvaða hætti hægt væri að samræma íslenska löggjöf á þessu sviði löggjöf þessara landa í samræmi við samþykktir norrænu ráðherranefndarinnar um samræmingu löggjafar á matvælasviðinu.
    Nefndin hefur í starfi sínu kynnt sér og haft til hliðsjónar matvælalöggjöf í nágrannaríkjum og löggjöf Evrópubandalagsins EB um matvæli ásamt íslenskum lögum og reglum á þessu sviði. Á starfstíma nefndarinnar hafa orðið miklar umræður um matvælalöggjöf, ekki síst í tengslum við samning um Evrópskt efnahagssvæði, EES, en óvíða hefur hann meiri áhrif en á matvælasviðinu. Fyrir því taldi nefndin eðlilegt að flýta sér ekki um of heldur reyna að standa þannig að málum að frv. til nýrra matvælalaga tæki mið af reglum Evrópubandalagsins. Nefndin telur að lagafrv. það sem hér liggur frammi taki tillit til efnisþátta sem fram koma í áðurgreindri löggjöf.
    Matvælalöggjöf og matvælaeftirlit hefur verið í þróun hér á landi frá því á árunum 1935--1936 en á þeim árum hófst örverufræðilegt matvælaeftirlit auk þess sem fyrsta heildarlöggjöfin um eftirlit með matvælum og öðrum neysluvörum tók gildi á þessum tíma. Lögin um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum nr. 24/1936 er að mestu leyti í gildi enn þann dag í dag og í kjölfar þeirra tóku gildi ýmsar reglugerðir um matvæli og matvælaeftirlit.
    Á grundvelli laganna var matvælaeftirlit ríkisins starfrækt á árunum 1936--1938 og sérstakt mjólkureftirlit var einnig starfrækt á árunum 1945--1947, síðan mjólkureftirlit fram til ársins 1969. Að öðru leyti var almennt matvælaeftirlit í höndum heilbrigðisnefnda og héraðslækna víðs vegar um land.
    Þróun mála hefur leitt til margra breytinga í matvælaframleiðslu og eftirliti og fyrstu reglugerðir um matvæli og matvælaeftirlit koma að litlum notum í dag þó svo að sumar þeirra séu enn í gildi. Matvælalögin hafa þó á margan hátt haldið gildi sínu þannig að nú er tímabært að endurskoða þau með hliðsjón af breyttum tímum og þeim áherslubreytingum sem fyrirsjáanlegar eru í nánustu framtíð í matvælaeftirliti.
    Frumvarp að nýjum matvælalögum er samið með hliðsjón af eldri löggjöf á þessu sviði en jafnframt er tekið tillit til breytinga sem verða með samræmingu innri markaðar í Evrópu og reynslu sem fengin er af matvælalöggjöf og matvælaeftirliti hér á landi á undanförnum áratugum og því samstarfi sem Norðurlöndin hafa haft á því sviði.
    Jafnframt má vísa til þeirra breytinga sem eru að verða við framkvæmd eftirlits í Kanada og mikilvægum viðskiptaríkjum eins og Bandaríkjunum. Markmið með setningu laga um matvæli er ekki eingöngu að tryggja heilnæmi og hollustu þeirra þó svo að þeir þættir vegi þungt heldur einnig tekið mið af almennum gæðum vörunnar og þáttum sem varða hagsmuni neytenda, svo sem upplýsingagjöf og réttmæta viðskiptahætti.
    Helstu nýmæli í frv. eru:
    1. Yfirstjórn matvælalöggjafar er samræmd og eftirlit verður á vegum þriggja ráðuneyta.
    2. Meðferð matvæla á einkaheimilum er undanskilin gildissviði laganna nema þar fari fram framleiðsla til dreifingar utan heimilisins.
    3. Sett eru ákvæði um þekkingu og fræðslu með tilliti til þess að framleiðendur og dreifendur skulu bera ábyrgð á eigin vöru og vandað sé til framleiðslu og meðferðar hennar.
    4. Sett eru ákvæði um sérfæðu og þá m.a. fæðu sem ætluð er börnum með hliðsjón og umfangsmikilli og ítarlegri löggjöf annarra ríkja og EB á þessu sviði.
    5. Ákvæði um umbúðamerkingar eru ítarlegri og taka mið af þeirri áherslu sem lögð er á góðar umbúðamerkingar í löggjöf annarra ríkja t.d. Bandaríkjanna og EB-ríkjanna.
    6. Ný ákvæði um fræðslustarfsemi eru talin mikilvæg til að ná markmiðum greinarinnar til að stuðla að bættri framleiðslu og meðferð matvæla og auka þekkingu og skilning neytenda.
    7. Frv. endurspeglar viðhorf varðandi eftirlit þar sem lögð er áhersla á innra eftirlit framleiðenda og dreifenda.
    Virðulegur forseti. Ég hef hér stuttlega rakið efni frv. til laga um matvæli. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar heilbr.- og trn.