Ratsjárstöðvar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:10:57 (540)

[15:10]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrir tæpum áratug síðan fóru fram miklar umræður um hugsanlega endurnýjun á ratsjárkerfi varnarliðsins og uppsetningu tveggja nýrra ratsjárstöðva á Norðvesturlandi og Norðausturlandi. Í tengslum við þær umræður var því m.a. velt fyrir sér hvort ætlunin væri eða æskilegt væri að setja upp sérstakar skiparatsjár í tengslum við ratsjárstöðvarnar sem síðar voru reistar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli. Í sérstakri skýrslu sem varnarmáladeild utanrrn., ratsjárnefnd, gaf út í október 1984 eru þessi mál m.a. tekin til umfjöllunar og sérstaklega skoðað notagildi uppsetningar skipaeftirlitsratsjáa. Niðurstaða þessarar skýrslu er sú að upplýsingar frá skiparatsjám á stöðvum norðvestanlands og norðaustanlands mætti nota m.a. á eftirfarandi hátt:
    1. Til öryggiseftirlits með skipum af öllum gerðum.
    2. Til eftirlits með fiskveiðum.
    3. Til að fylgjast með veðri og jafnvel til að greina hafís.
    Síðan er farið nákvæmari orðum um þetta og m.a. vakin athygli á að hægt væri að fylgjast með umferð á viðkomandi hafsvæði og ferðum einstakra skipa og frá því greint að ratsjárkerfi af þessu tagi séu algeng á fjölförnum skipaleiðum, t.d. á Ermarsundi. Enn fremur er sagt um eftirlit með fiskveiðum að ljóst sé að nota mætti upplýsingar frá skiparatsjám til þess að fylgjast með sókn á þau fiskimið sem eru innan sjónmáls frá þeim stöðvum þar sem ratsjárnar eru staðsettar. Varðandi önnur not er vakin athygli á því í þessari ítarlegu skýrslu að hægt sé að nýta skipa- og flugratsjár til að greina úrkomusvæði og hefði þess vegna ómetanlegt gildi fyrir veðurspá. Þessi úrkomusvæði væru þá auðkennd á ratsjárskjánum og gerður greinarmunur á t.d. allt að 7 úrkomustigum.
    Niðurstaðan af þessum vangaveltum skýrsluhöfunda er þessi, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Sérstökum skiparatsjám yrði komið fyrir á þeim stöðum þar sem rætt hefur verið um að reisa ratsjárstöðvarnar til eftirlits með flugumferð umhverfis landið. Þessar stöðvar gætu greint skip í allt að 56 sjómílna fjarlægð frá Stigahlíð, 34 sjómílna fjarlægð frá Hrollaugsstaðafjalli og 59 sjómílna fjarlægð frá Gunnólfsvíkurfjalli. Upplýsingar frá þessum ratsjám kæmu einkum að gagni við öryggiseftirlit með skipaumferð á þessum svæðum. Upplýsingar frá stöðvunum kæmu einnig að gagni við stjórn leitar- og björgunaraðgerða á lofti og legi. Er ljóst að nota má slíkar ratsjár til að fylgjast með úrkomu og jafnvel hafís á þeim svæðum sem ratsjáin nær til. Þessi atriði eru þó háð tæknilegri útfærslu á búnaði skipaeftirlits ratsjárinnar og þeim aðferðum sem beitt yrði við að vinna úr upplýsingum frá henni.``
    Nú eru fjórar ratsjárstöðvar í gangi á Íslandi og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér hafa ekki enn þá verið settar upp neinar skiparatsjár og í sérstökum bæklingi um þessar ratsjárstöðvar sem Ratsjárstofnun gefur út, eru heldur ekki nefndar þessa skiparatsjár né hvort ætlunin sé að standa við það sem talað var um í þessari fyrrnefndu skýrslu ratsjárnefndar frá 1984. Því hef ég leyft mér að leggja fram eftirfarandi fsp. til hæstv. utanrrh.:
    ,,Hvað líður uppsetningum skiparatsjáa í tengslum við ratsjárstöðvarnar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli?``