Viðreisnarsjóður Evrópuráðsins

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:20:43 (544)

[15:20]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Íslendingar eru aðilar að fjölda alþjóðasamtaka og stofnana sem gegna margvíslegum hlutverkum. Innan þessara stofnana er að finna ráð, nefndir og sjóði sem Íslendingar taka þátt í og greiða gjöld til en oft fréttist lítið af því starfi sem þar fer fram. Einn af þeim sjóðum sem Evrópuráðið hefur á sínum snærum er svokallaður Viðreisnarsjóður Evrópuráðsins eða Council of Europe Resettlement Fund eins og hann heitir á ensku. Sjóður þessi hefur það hlutverk að veita þeim þjóðum Evrópuráðsins lán sem verða fyrir áföllum af einhverju tagi, svo sem jarðskjálftum, flóðum eða öðrum náttúrhamförum, en einnig og ekki síst að styðja þær þjóðir ráðsins sem stríða við hvers kyns félagslegt misrétti að leiðrétta það. Þannig hafa lán verið veitt til að útrýma heilsuspillandi húsnæði, til aðstoðar flóttamönnum og fleira.
    Viðreisnarsjóðurinn heyrir undir aðra þeirra nefnda sem ég á sæti í í Evrópuráðinu, þ.e. þá nefnd sem fjallar um málefni flóttamanna, fólksfjöldaþróun og lýðfræði.
    Á fundi nefndarinnar sl. vor var þeim tilmælum beint til þingmanna að vekja athygli á sjóðnum og kanna hvort og hvernig viðkomandi ríkisstjórnir hefðu nýtt sér sjóðinn.
    Í þeim gögnum sem ég hef undir höndum kemur fram að Íslendingar hafa fengið lán úr sjóðnum án þess að það komi fram til hvers þau hafi verið notuð. Því legg ég eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. utanrrh. á þskj. 61:
  ,,1. Hversu mikið fé hafa Íslendingar greitt árlega til Viðreisnarsjóðs Evrópuráðsins á árunum 1988--1993?
    2. Hversu mikla peninga hafa Íslendingar fengið að láni úr sjóðnum frá stofnun hans?
    3. Hvenær var síðast sótt um lán og til hvaða verkefnis?
    4. Til hvaða verkefna hefur lánum frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins verið varið hér á landi?``