Viðreisnarsjóður Evrópuráðsins

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:23:08 (545)

[15:23]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst er spurt hversu miklu fé Íslendingar hafi varið árlega til Viðreisnarsjóðs Evrópuráðsins á árunum 1988--1993. Svarið er að Ísland hefur ekki greitt bein framlög til sjóðsins á þessum árum, hins vegar fer hluti af framlagi Íslands til Evrópuráðsins til almenns reksturs þess en það nam 184.500 kr. á yfirstandandi ári. Því má bæta við að Ísland tók hins vegar þátt í höfuðstólsaukningu sjóðsins, bæði 1987 og 1988 og eins 1991 og 1992. Með höfuðstólsaukningunni voru styrkari stoðir færðar undir starfsemi sjóðsins, engar greiðslur fóru fram af Íslands hálfu, einungis tilfærslur úr varasjóði og trygging sem íslensk stjórnvöld gefa. En með þátttöku í þessari höfuðstólsaukningu tryggði Ísland sér áfram sömu eignarhlutdeild í sjóðnum og verið hafði.
    Í annan stað er spurt hversu mikla peninga hafa Íslendingar fengið að láni úr sjóðnum frá stofnun hans. Svarið er að Ísland hefur fengið lán frá stofnun hans árið 1956 til ársloka 1992 samtals að upphæð 67 millj. ECU eða sem svarar 5,5 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi íslensku krónunnar í dag.
    Þriðja spurning: Hvenær var síðast sótt um lán og til hvaða verkefnis? Svarið er að þann 16. júlí sl. var sótt um lán fyrir hönd Byggðastofnunar að fjárhæð 7,2 millj. ECU eða um 580 millj. ísl. kr. Umsóknin var dregin til baka þar sem verkefni þau sem Byggðastofnun ætlaði að endurlána til þóttu ekki nægilega traustlega skilgreind. Umsókn Byggðastofnunar verður væntanlega lögð fram að nýju á næstunni. Þá ákvað ríkisstjórnin þann 23. febr. sl. að afsala sér 115 millj. kr. lánsheimild á niðurgreiddum vöxtum frá sjóðnum með því skilyrði að lánið yrði notað til aðstoðar við flóttamenn í fyrrverandi Júgóslavíu. Ætla má að vextir af þessu láni séu nú um 9 millj. ísl. kr. lægri á ári en á almennum lánamarkaði þannig að þetta var umtalsverð aðstoð við þá sem eiga um sárt að binda í þessum löndum.
    Síðasta lán sem Ísland fékk til uppbyggingar hér á landi var 23. júlí 1984 til Byggðastofnunar sem endurlánaði til ýmissa verkefna, bátasmíði, frystihúsa og hafnarmannvirkja.
    Í fjórða lagi er spurt: Til hvaða verkefna hefur lánum frá Viðreisnarsjóðnum verið varið hér á landi? Ísland hefur fengið lán vegna samgönguáætlunar Vestfjarða 1965--1968 og byggðalínuverkefnisins sem fólst í samtengingu raforkuvera á Íslandi. Einnig tók Framkvæmdasjóður fyrir hönd Byggðastofnunar ýmis lán hjá Viðreisnarsjóðnum, Byggðastofnun endurlánaði síðan til fjölda verkefna, þar á meðal til uppbyggingar í Vestmannaeyjum eftir eldgosið 1973.