Viðreisnarsjóður Evrópuráðsins

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:25:38 (546)

[15:25]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessi svör, þau voru skýr og skilmerkileg. Mér þótti þó merkilegt það sem kom fram sem svar við fyrstu spurningunni að það væri ekki greitt beint til sjóðsins því það kom fram á þessum fundi í vor að það væru einmitt vandræði hvað fáar þjóðir greiddu beint til hans.
    Mér finnst líka athyglisvert að heyra hvaða verkefni hafa verið hér á ferð því samkvæmt þeim skilgreiningum sem fylgja þeim plöggum sem ég hef undir höndum þá teygja menn sig greinilega nokkuð langt í að skilgreina hvað er að draga úr félagslegu misrétti eða bæta stöðu fólks, en það er kannski bara af því góða. En samkvæmt ársskýrslu 1992 þá eru það einkum Tyrkir og Grikkir sem hafa notið styrkja eða lána úr sjóðnum, enda geta menn sagt sér það að þar er við ýmsa erfiðleika að etja. Það er svo sem ekki meira um þetta að segja, ég mun kanna þetta mál nánar en það er athyglisvert að Íslendingar skuli afsala sér lánum en greinilegt að menn þurfa líka að vanda betur umsóknirnar þegar Byggðastofnun á í hlut.