Staða brotaþola í kynferðisbrotamálum

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:36:26 (551)

[15:36]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 26 ber ég fram svohljóðandi fyrirspurn til dómsmrh.:
    ,,Er þess að vænta að í því frv. til laga um breyting á lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sem boðað er í stefnuræðu forsrh., verði reynt að styrkja stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum í samræmi við ábendingar sem Alþingi sendir dómsmrh. á síðasta þingi?``
    Ástæðan fyrir því að ég ber fram þessa fsp. í upphafi þings er sú að á síðasta þingi var samþykkt þál. Fyrsti flm. þeirrar tillögu var Sólveig Pétursdóttir en þar ályktaði Alþingi m.a. að fela dómsmrh. að skipa nefnd til að athuga hvort taka ætti upp það fyrirkomulag að ríkissjóður ábyrgðist greiðslur dæmdra bóta vegna grófra ofbeldisbrota.
    Þá var líka samþykkt að vísa til ríkisstjórnarinnar till. til þál. sem ég var fyrsti flm. að en í afgreiðslu Alþingis á þeirri tillögu segir m.a., það er nál. allshn. sem ég vísa í, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin telur að tillagan hreyfi við mikilvægu máli sem vert er að fela ríkisstjórninni að kanna og leggja fram tillögur um svo fljótt sem auðið er. Sérstaklega er athyglisverð hugmynd sem reifuð er í grg. með tillögunni á bls. 2. Snýr hún að því að þolendur kynferðisbrota öðlist fortakslausan rétt til endurgjaldslausrar aðstoðar löglærðs talsmanns allt frá upphafi rannsóknar og þar til meðferð máls lýkur.``
    Þetta var samþykkt á þinginu í fyrra og nú sá ég í fylgiskjali með stefnuræðu forsrh. að ætlunin væri að leggja fram frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og því hlýt ég að spyrja hvort þessi mál komi þar sérstaklega til skoðunar. Ekki síst í ljósi þess að nýverið eða þann 22. sept. sl. var haldinn mjög fjölmennur fundur hér í bænum á vegum svokallaðrar kvennakeðju um meðferð kynferðisofbeldismála og þar var ályktað sérstaklega út af meðferð þessara mála í réttarkerfinu. Þar er ályktun í níu liðum þar sem listað er upp hvaða breytingar það fólk, það voru reyndar bæði karlar og konur sem fjölmenntu á þennan fund og skrifuðu nafn sitt undir þessa ályktun, hvaða breytingar það vill sjá á lögum um meðferð opinberra mála. Því spyr ég nú ráðherra hvort standi til að taka tillit til þessara ábendinga sem berast úr ýmsum áttum.