Móttaka flóttamanna

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:44:27 (554)

[15:44]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. dómsmrh. fyrirspurnir sem varða frammistöðu okkar Íslendinga eða framkvæmd á móttöku erlendra flóttamanna. Það er þannig, eins og kunnugt er, að þó Íslendingar hafi fullgilt flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1951, þá virðist ýmsu ábótavant hvað varðar fyrirkomulag þeirra mála í okkar löggjöf og þó ekki síður hvað varðar framkvæmdina, ef á hana reynir eða á hana

kynni að reyna. Réttur flóttamanna á Íslandi er til að mynda hvorki tryggður í lögum né í okkar stjórnarskrá. Það vantar skilgreiningu á hugtakinu ,,flóttamaður``. Það eru í raun engar skýrar reglur til um það né heldur hvenær megi vísa manni sem óskar eftir hæli frá og hvernig fara skuli með meðferð slíkra mála og hver réttarúrræði þess fólks skuli vera.
    Hins vegar höfum við, eins og áður sagði, fullgilt flóttamannasamninginn og þar eru slíkar skilgreiningar og ýmis ákvæði eins og t.d. þau sem banna frávísun flóttamanns frá landamærum og meginregla samningsins er sú að mál hælisumsækjanda skuli könnuð. Hann skal njóta lögfræðiaðstoðar á öllum stigum og hafa rétt til þess að áfrýja máli sínu til dómstóla. Að sjálfsögðu skulu honum aðgengileg öll þau gögn sem varða hans réttarstöðu og þar fram eftir götunum. Á þessu eru verulegar brotalamir án þess að tími sé til þess að rekja það hér frekar. En sem dæmi má nefna að lögin um málefni útlendinga hafa ekki verið til á erlendum tungumálum nema ef vera skyldi dönsku, en eins og kunnugt er eru nú ekki mestar líkur á því að erlendir flóttamenn eða pólitískir komi hingað frá Danmörku.
    Það er að vísu svo að sem betur fer hefur e.t.v. ekki reynt á það, þannig að hægt sé að sýna fram á að við Íslendingar höfum með beinum hætti gerst brotlegir og brotið rétt á flóttamönnum sem hér hafa leitað hælis. En engu að síður er það mjög athyglisverð og umhugsunarverð staðreynd að Íslendingar hafa aldrei veitt einstaklingi sem hér hefur leitað eftir hæli sem flóttamaður vist. Nú er við því að búast að samgöngur séu að breytast þannig til landsins að reglubundnar samgöngur verði frá Íslandi til þriðja heims landa. Sú þægindastaða sem við höfum að nokkru leyti búið við og skýlt okkur á bak við í þessum efnum, að geta endursent flóttamenn eða einstaklinga, sem hingað koma án fullgildandi pappíra, til nágrannalandanna, Norðurlandanna, og treyst því að þar fái mál þeirra réttláta meðferð, verður því e.t.v. ekki fyrir hendi í framtíðinni ef héðan hefjast t.d. áætlunarsamgöngur til þriðja heims ríkja.
    Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. dómsmrh. eftirfarandi spurningar:
    ,,Hefur dómsmálaráðuneytið í undirbúningi að gera úrbætur varðandi meðferð mála erlendra flóttamanna sem kunna að beiðast hér hælis?
[15:47]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Því er til að svara að dómsmrn. fyrir sitt leyti stuðlar að því að flóttamenn sem hingað koma og beiðast hælis njóti allra þeirra réttinda sem alþjóðlegar skuldbindingar krefjast. Lög um eftirlit með útlendingum kveða svo á að ef útlendingur sem hingað kemur ber að hann hafi orðið að leita sér hælis sem pólitískur flóttamaður og framburður hans telst sennilegur, þá má lögreglan ekki meina honum landgöngu. Skal leggja málið án tafar fyrir dómsmrh. til úrskurðar.
    Þegar rætt er um úrbætur er varða meðferð mála erlendra flóttamanna ber þess að geta að allar úrbætur hljóta að ráðast af því hver þörfin er á hverjum tíma. Flóttamenn hafa ekki lagt leið sína hingað til lands með sama hætti og til margra annarra landa og eru þarfir hér því aðrar en víðast hvar annars staðar þar sem hópar flóttamanna koma dag hvern eins og hv. fyrirspyrjandi gat reyndar um í ræðu sinni. Atriði sem nefnd hafa verið og talin er þörf úrbóta á varða einkum stöðu flóttamanns þegar hann kemur til landsins, t.d. að hann geti notið aðstoðar túlks og eftir atvikum lögmanns og hann hafi aðgang að reglum sem gilda um útlendinga. Þegar útlendingur kemur til landsins hvort sem hann er flóttamaður eða ekki ber honum eins og öðrum að gera grein fyrir sér. Ef hann kveðst vera flóttamaður þá er það hlutverk lögreglu eða vegabréfaeftirlits að kanna frásögn hans. Er þá m.a. haft samráð við útlendingaeftirlitið sem síðan hefur samband við dómsmrn. um frekari meðferð málsins. Ráðuneytið hefur þegar gert ráðstafanir til þess að lögin um eftirlit með útlendingum og reglugerð um sama efni verði þýdd á ensku og einnig er fyrirhugað að þau verði þýdd á frönsku. Til þessa hafa lögin og reglugerðin eingöngu verið til í danskri þýðingu. Með þessu ættu reglur um þetta að verða aðgengilegri fyrir útlendinga og er fyrirhugað að þessar þýddu útgáfur liggi frammi á þeim stöðum þar sem útlendingar koma til landsins.

    Ráðuneytið telur rétt að miða við það að túlkur verði fenginn til aðstoðar við skýrslutöku og eftir atvikum einnig lögmaður þegar þess er þörf eða óskað er eftir. Þetta er reyndar gert eftir því sem unnt er þegar til beinnar skýrslutöku kemur en er ekki lögboðið. Hefur ráðuneytið þegar áréttað þetta atriði við útlendingaeftirlitið og mun það einnig beina því til utanrrn. sem fer svo sem kunnugt er með framkvæmd mála á Keflavíkurflugvelli.
    Á það hefur einnig verið bent að ekki sé unnt að bera ákvörðun dómsmrn. um það hvort einstaklingi skuli veitt hæli undir æðra stjórnvald eða dómstóla. Er í þessu sambandi rétt að vekja athygli á breytingu sem lögð er til í frv. til laga um breyting á ýmsum lögum er varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að EES, sem lagt var fram á síðasta þingi og hefur nú verið endurflutt. Þar er lagt til að lögum um eftirlit með útlendingum verði breytt á þann veg að ákvarðanir sem nú eru í höndum dómsmrn. flytjist til útlendingaeftirlitsins en með kærurétti til ráðuneytisins. Í sambandi við umræðu um þessi mál ber að hafa í huga þá staðreynd að fáir flóttamenn leggja leið sína hingað til lands og eru umsóknir um hæli því fátíðar. Mál vegna flóttamanna komu síðast til úrskurðar í dómsmrn. fyrir fáeinum árum, árið 1990 að ég hygg. Árið 1991 kom hingað fjölskylda frá Pakistan og baðst hælis en hún fór fljótlega utan áður en málið hafði fengið afgreiðslu hjá stjórnvöldum.
    Örfá dæmi eru hins vegar um að hingað komi flóttamenn eftir dvöl í einhverju nágrannalandanna þar sem þeir hafa sótt um hæli, einkum frá Norðurlöndum. Samkvæmt gögnum frá útlendingaeftirlitinu eru þrjú dæmi um það frá síðasta ári og eitt á þessu ári. Höfðu þeir allir lagt inn umsóknir í Noregi eða Svíþjóð. Þessum flóttamönnum hefur ekki verið leyfð landganga og þeim því snúið til baka. Er í því efni fylgt sömu framkvæmd og víða annars staðar þar sem að meginstefnu er miðað við að svokallað fyrsta hælisland, þ.e. að það örugga land sem fyrst er komið til eigi að fjalla um umsóknir um hæli. Þetta á þó eingöngu við að stjórnvöld hafi vissu fyrir réttsýnni málsmeðferð í því landi sem útlendingurinn snýr aftur til.