Endurskoðun laga um mannanöfn

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:55:53 (558)

[15:55]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er á þskj. 49 og er til hæstv. dómsmálaráðherra og er svohljóðandi:
    ,,Hvenær má vænta að endurskoðun laga um mannanöfn verði lokið?``
    Á síðasta þingi var lögð fram fyrirspurn af sama toga og fengust þá þau ánægjulegu svör frá hæstv. dómsmálaráðherra að þessi lög yrðu endurskoðuð.
    Nú er það svo að á þeim lista sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram um mál sem hún hyggst leggja fram á þessu þingi er ekki að sjá að við megum vænta nýrra laga um mannanöfn. Það er flestum kunnugt um þann mikla sársauka og óánægju sem lög um mannanöfn sem tóku gildi haustið 1991 hafa valdið. Góð og gild nöfn sem hafa varðveist mann fram af manni eru ekki lengur gjaldgeng, jafnvel þó að prestar hafi í heilagri skírn innsiglað þessi nöfn. Þá hefur Hagstofan neitað að skrá þau í þjóðskrá og börnin eru enn þá skráð óskírð.
    Áralöng hefð er fyrir mörgum þessara nafna, t.d. nafninu Berg, sem er millinafn, sbr. Sævar Berg o.s.frv. Þetta er að sjálfsögðu alíslenskt nafn en ekki lengur löglegt. Þá eru millinöfn bönnuð. Ég þekki marga ættliði sem allir hafa þetta millinafn, Berg. En þau börn sem eru skírð eftir lagabreytingu hafa að sjálfsögðu ekki fengið þetta nafn viðurkennt þrátt fyrir að eiga eldri systkini með þetta millinafn.
    Í núgildandi lögum segir að nafnið verði að vera íslenskt og hafa unnið sér nokkra hefð í íslensku máli. Ekki veit ég hversu margar kynslóðir þurfa að bera nafn til að það sé komin hefð á nafnið. Það er ævinlega þannig að þegar börn eru skírð, þegar barni er gefið nafn, þá er það gert að vandlega íhuguðu máli. Nöfn forfeðranna eru mönnum kær og því óviðunandi að þrengja svo svigrúm til nafngiftar sem raun ber vitni.
    Ég taldi nauðsynlegt að ýta við þessu máli aftur því það eru svo margir sem bíða úrlausnar sinna mála hvað þetta varðar. En um leið vil ég fagna því að nokkur mál hafi verið leiðrétt vegna harðfylgis foreldra. En þrátt fyrir að ný mannanafnanefnd hafi verið mun sveigjanlegri upp á síðkastið tel ég nauðsynlegt að endurskoða lög um mannanöfn.