Endurskoðun laga um mannanöfn

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:01:05 (560)


[16:01]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og ég fagna því að þessi nefnd skuli vera að hefja störf og vona að það verði mjög fljótlega, en ég vona að þeir verði sveigjanlegir í sinni lagagift. En vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um verklagsreglur sem ný mannanafnanefnd hefði en ég tel þær vera afar flóknar og vil, með leyfi forseta, lesa upp úr þeim:
    ,,Ung tökunöfn eru þau tökunöfn sem hafa komið inn í íslenskt mál eftir 1703. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð ef það fullnægir einhverju einu af eftirfarandi skilyrðum:
    a. Það er nú borið af a.m.k. af 20 Íslendingum.
    b. Það er nú borið af 15--19 Íslendingum og sá elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri.
    c. Það er nú borið af 10--14 Íslendingum og sá elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri.
    d. Það er nú borið af 5--9 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 (eða fyrr).
    e. Það er nú borið af 1--4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntali 1845 (eða fyrr).
    f. Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntali árið 1845 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað eftir 1910.``
    Virðulegi forseti. Fyrir mér eru þetta ákaflega flóknar reglur og ég vona sem sagt að ný nefnd sem fjallar um þetta hafi þetta ofurlítið ljósara svo að almenningur átti sig á hefðinni.