Veðmálastarfsemi

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:03:12 (561)

[16:03]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Happrætti og opinberar fjársafnanir hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu og ekki af tilefnislausu. Ljóst er að stór hluti allra þeirra milljarða sem aflað

er með þessum hætti er án lagaheimildar og án eftirlits með því hvað verður um þetta fé. Leyfi ég mér að benda á skriflegt svar við fsp. hv. 4. þm. Suðurl., Margrétar Frímannsdóttur, á þskj. 110, en þar kemur fram að 5 aðilar af 190 hafa sent tilkynningar til lögreglustjóra um opinbera birtingu á reikningsyfirliti söfnunar sem fram fór í umdæmi þeirra eins og lög mæla fyrir um.
    Í refsilögum nr. 19/1940 segir svo í 183. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru.``
    Í 184. gr. sömu laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sækta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 1 ári.``
    Árið 1945 voru sett lög um heimild til dómsmrh. til að veita leyfi til veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og kappróður. Skyldi 10% ágóðans af happdrætti hestamannafélaganna renna til lagningar reiðvega, en 75% af hagnaði sjómannadagsráðanna í sjóminjasafn. Lagasetning þessi er óneitanlega kyndug þegar litið er til ákvæða hegningarlaga sem sett voru fimm árum áður en hana verður að skoða sem sérstaka undanþágu. En síðan hafa fleiri lög verið sett sem erfitt er að líta á nema sem veðmálastarfsemi. Nefna má lög um getraunir, nr. 59/1972, lög um talnagetraunir, nr. 26/1986, en þess utan hafa sprottið upp aðrar tegundir veðmála, alls kyns bingóspil og síðast en ekki síst spilakassar Rauða krossins sem engin lög eru fyrir, en notuð mun hafa verið takmörkuð undanþáguheimild fyrir peningahappdrætti. Reglugerð sem gefin var út til þessara kassa Rauða krossins mun eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um hafa runnið út árið 1973 og aldrei verið endurnýjuð og ég skal þá taka leiðréttingu ef hér er farið með rangt mál.
    Þar sem nú stendur fyrir dyrum frekari útfærsla á þessari mjög svo ógeðfelldu veðmálastarfsemi með Háskóla Íslands í broddi fylkingar hef ég séð ástæðu til að spyrja hæstv. dómsmrh. eftirfarandi spurninga sem frammi liggja á þskj. 55. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti. Mér er ljóst að tími minn er búinn og því mun ég ekki lesa spurningarnar og treysti því að hv. þm. hafi þær á þskj. fyrir framan sig.