Veðmálastarfsemi

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:10:06 (563)


[16:10]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans sem voru áreiðanlega rétt og heiðarleg, en óneitanlega benda þau á ýmsa annmarka og ágalla sem eru á rekstri veðmálastarfsemi hér í landi. Það kom t.d. fram í svari hans að þeir aðilar sem hafa fengið nú síðast árið 1988 leyfi til að efna til veðmálastarfsemi hafa ekki gert nein skil og maður hlýtur að spyrja sig: Hvert fer þetta fé sem inn hefur komið? Og það er auðvitað fráleitt, eins og kemur raunar fram í svari sem ég minntist á áðan við fyrirspurn hv. 4. þm. Suðurl., að það er ekkert eftirlit með þessari starfsemi. Nú er ég ekki að áfellast núv. hæstv. dómsmrh. fyrir það. Ég held að fleiri eigi þar svo sannarlega sök á.
    Mér þykir hins vegar þetta mál sanna það að mikil nauðsyn er á að setja heildarlög um happdrætti, veðmálastarfsemi og annað slíkt í landinu. Ég á erfitt með að taka svar hæstv. ráðherra við 4. spurningu minni öðruvísi en að hann vildi lítið úttala sig um hvað hann liti á sem veðmálastarfsemi en spurningin var hvaða önnur lög fjalla um það sem dómsmrh. skilgreinir sem veðmálastarfsemi.
    Nú er það alveg ljóst að lög um getraunir geta auðvitað ekki verið neitt annað en veðmálastarfsemi og sama er að segja um lög um talnagetraunir. Þessi lög hafa verið sett og það er auðvitað fráleitt að á sama tíma og við erum með ákvæði í hegningarlögum um að bannað sé að efna til veðmálastarfsemi, þá sé í sífellu verið að setja ný lög um veðmálastarfsemi. Ég held að þetta hljóti að valda hæstv. ráðherra vanda og vil leggja á það mikla áherslu að niðurstaða þessarar umræðu verði sú að hæstv. ráðherra láti vinna frv. til laga um þessi mál og ég vil heyra áður en umræðunni lýkur hvort hæstv. dómsmrh. getur ekki verið sammála mér um það.