Réttaráhrif tæknifrjóvgunar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:21:03 (568)

[16:21]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. enn fyrir að hafa skilning á þessu máli, en ég vildi vegna orða hans um ákvæði í barnalögum leyfa mér að upplýsa hv. þm. um að ákvæðið í barnalögunum frá 22. maí 1992 var sett inn á síðustu stundu til að bjarga einhverju í þessu máli. Það er örstutt grein sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú hefur maður samþykkt að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu sinni, sbr. 3. gr., og er þá í máli skv. 52. gr. því aðeins unnt að taka til greina kröfu um vefengingu á faðerni barnsins að ljóst sé að það sé ekki getið við tæknifrjóvgunina.``
    Þetta er allt og sumt sem í barnalögunum stendur og það segir sig auðvitað sjálft að þetta er haldlítið þegar kæmi til hugsanlega flókinna erfðamála eða einhvers slíks. Ég vil því leggja á það mikla áherslu að farið verði að tryggja rétt þessara aðila. Mér er sagt að börn sem getin eru við tæknifrjóvgun, glasafrjóvgun og hvað þetta nú allt saman heitir og ég kann ekki að nefna, séu að nálgast 500 og það nær auðvitað ekki nokkurri átt að slíkir einstaklingar búi við það og sum þeirra eru orðin nokkurra ára gömul að hafa ekki sama rétt og önnur íslensk börn. Ég vil þess vegna leggja á það mikla áherslu að þetta mál komi til þingsins í frumvarpsformi áður en allt of langt um líður.