Samningur gegn ólöglegri verslun með fíkniefni

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:27:18 (571)


[16:27]
     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst það mjög jákvætt að fyrirhugað er að fullgilda þennan samning en nokkuð finnst mér svörin vera áþekk því sem áður hefur komið fram og lítið hafi miðað umfram það að þýða samninginn, en það kom einmitt fram við umræður sem fóru hér fram varðandi fsp. frá hv. þm. Guðna Ágústssyni á síðasta þingi.
    Það eru mjög mikil umsvif á þessum ólöglega fíkniefnamarkaði hér hjá okkur og við höfum sannarlega fundið þess ýmis merki og er skemmst að minnast að um þessa helgi var fjallað um stóra málið frá því í sumar þar sem gerð voru upptæk 20 kg af hassi og 3 kg af amfetamíni. Það er líka slegið á að veltan á þessum markaði nemi hundruðum millj. kr. Í nágrannalöndunum er líka haft orð á því að unglingafíkniefnið ,,ecstasy`` hafi náð slíkri útbreiðslu að nánast er talað um nýja fíkniefnamenningu í neikvæði merkingu og að framleidd eru neysluefni í því formi að höfða á sérstaklega til barna og unglinga og varað er við eins konar ,,design drugs``. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og við eigum að leita allra leiða til þess að vinna bug á þessum vanda og nýta okkur þá stöðu sem við höfum.
    Ég vil líka geta þess að í yfirliti yfir verkefni 48. allsherjarþings sem fram undan er kemur fram að árið 1990 var efnt til aukaallsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem samþykkti áætlun um stærð samtakanna í baráttunni gegn fíkniefnum og að stofnað var fíknilyfjaeftirlit Sameinuðu þjóðanna á næsta allsherjarþingi á eftir. 47. allsherjarþingið samþykkti áætlun þar sem ákveðið var að halda fjóra allsherjarþingsfundi í haust með þátttöku ráðherra í því skyni að kanna stöðu alþjóðasamvinnu í baráttunni gegn fíkniefnum.
    Það hefur komið fram að íslensk stjórnvöld styðja starfsemi Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði og leggja áherslu á þátttöku í þessum störfum og því er mikilvægt að þetta veganesti verði með sem fyrst að samningurinn verði staðfestur.