Orsakir atvinnuleysis

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:40:01 (576)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og hæstv. forsrh. fyrir svörin þó að þau væru kannski ekki nógu ítarleg. En þau eru nógu ítarleg til þess auðvitað að sjá hvílíkur háskaleikur þær leikfimiæfingar sem hafa verið tíðkaðar í sumar af hæstv. utanrrh. og viðskrh. varðandi innflutning og áróður fyrir innflutningi landbúnaðarvara er. Það er hér í skýrslu Byggðastofnunar, um breyttar áherslur í byggðamálum, tiltekið að ársverk í landbúnaði og úrvinnslu séu um 10.000. Ef þriðjungur af þessu væri brotinn niður eða helmingur með innflutningi þá mundi atvinnuleysi aukast um helming, svo einfalt er málið.