Réttur feðra til launa í fæðingarorlofi

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:43:07 (579)

[16:42]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Þann 10. sept. sl. gaf kærunefnd jafnréttismála út álit í tveimur málum sem til hennar höfðu borist og vörðuðu fæðingarorlof feðra sem eru í starfi hjá ríkinu. Ég ætla að leyfa mér að hlaupa hér á öðru málinu til að gefa þingmönnum til kynna hvað þarna er um að ræða en vil jafnframt taka það fram að bæði þessi álit eru fáanleg hér á skrifstofu þingsins.
    Í fyrra málinu eru málavextir þeir að í bréfi kæranda, sem hann sendi kærunefnd jafnréttismála, segir að hann hafi eignast dóttur í aprílmánuði 1992 og samkomulag hafi orðið með þeim hjónum um að hann tæki einn mánuð í fæðingarorlof, frá 2. sept. til 2. okt. 1992. Þessa fyrirætlan hafi hann tilkynnt yfirmönnum sínum í menntmrn. með bréfi, dags. 7. maí. Þann 30. júní hafi hann skrifað fjmrn. og óskað staðfestingar á rétti sínum til launaðs fæðingarorlofs. Með bréfi, dags. 1. júlí 1992, hafi fjmrn. tilkynnt honum að hann ætti aðeins rétt á ólaunuðu fæðingarorlofi. Þá sótti þessi maður um greiðslu fæðingardagpeninga hjá Tryggingastofnun ríkisins --- reyndi að fara þá leið --- en með bréfi, dags. 26. ágúst 1992, hafi því erindi verið synjað með þeim rökum að til þeirra ætti hann ekki rétt þar sem konan hans hefði aldrei notið fæðingardagpeninga, þ.e. hún var opinber starfsmaður. Úrskurður tryggingaráðs byggði á því að réttur feðra væri afleiddur af rétti mæðra. Hefði móðir ekki fengið greidda fæðingardagpeninga ætti faðir ekki slíkan rétt. Starfsmannaskrifstofa fjmrn. rökstyður aftur synjun sína með því að lögin um fæðingarorlof fjalli aðeins um rétt til töku fæðingarorlofs en um greiðslur í fæðingarorlofi er vísað til laga um almannatryggingar. Um rétt ríkisstarfsmanna til greiðslna í fæðingarorlofi fari samkvæmt reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins. Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar segir:
    ,,Ákveða skal með reglugerð, hvernig fari um launagreiðslur til starfsmanna í veikindaforföllum svo og til kvenna í fjarvistum vegna barnsburðar.``
    Á grundvelli þessa telur starfsmannaskrifstofan að karlar í starfi hjá ríkinu eigi ekki rétt á launuðu fæðingarorlofi.
    Kærunefndin fjallaði um þetta og álit hennar er það að með framkvæmd almannatryggingalaganna standi stór hluti feðra, þar á meðal kærandi, án nokkurs réttar til greiðslna taki þeir fæðingarorlof. Þeir séu þannig beittir misrétti sem engin efnisleg rök virðist fyrir og sem virðist ekki hafa verið ætlan löggjafans á sínum tíma. Það er m.a. vísað í umræður hér á þingi.
    Kærunefndin telur þá túlkun starfsmannaskrifstofu fjmrn., að ríkinu sé ekki skylt að greiða körlum í sinni þjónustu laun í fæðingarorlofi, hvorki í samræmi við 4. gr. laga nr. 28/1991, sem eru jafnréttislögin, tilgang þeirra laga né skilning og fyrirætlan löggjafans þegar sett voru lög nr. 57/1987 og lög nr. 59/1987. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, forseti. Hér eru lokaorðin í áliti kærunefndar jafnréttismála:
    ,,Með vísan til 20. gr. laga nr. 28/1991 er þeim tilmælum beint til fjmrn. að það

hlutist til um að gerðar verði þær ráðstafanir sem þarf til þess að viðurkenndur verði og tryggður réttur feðra í þjónustu ríkisins til launa í fæðingarorlofi.``
    Nú spyr ég: Hvað hyggst fjmrh. gera?