Einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:06:16 (589)


[17:06]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin en ég er jafnósammála honum eftir sem áður því ég get ekki lesið annað út úr þeim tölum sem ég tíundaði áðan en að sú stefna sem ríkisstjórnin markaði og hefur sett í fjárlög ár eftir ár hafi mistekist. Menn hafa ætlað sér að selja eignir fyrir allt að 1,5 milljarða kr. en það hefur ekki gengið eftir.
    Ég get ítrekað það hér að ég tel að einkavæðing eigi rétt á sér og ríkið sé enn þá að vasast í ýmsum málum sem það á ekki að vera að skipta sér af og eru arfur frá gömlum tíma, en hins vegar eru mörg þau áform sem ríkisstjórnin er með mjög af hinu slæma og menn þurfi þar að líta til reynslu annarra þjóða. Ég hugsa þá ekki síst til Pósts og síma og fleiri slíkra fyrirtækja sem þjóna öllum almenningi og hafa verið einkavædd í ýmsum löndum með þeim afleiðingum að verð hefur hækkað og þessi fyrirtæki treysta sér ekki til þess að standa í samkeppni og skera niður þjónustuna.
    Þess ber að minnast að ríkisstjórnin hefur af gæsku sinni tengt einkavæðinguna framlögum til vísindarannsókna og hefur nefnt það margsinnis að það þurfi að efla vísindarannsóknir hér á landi til að efla atvinnulífið, en tengt það þessari tekjuöflun sem hefur skilað sáralitlu. Þar af leiðandi hefur lítið fé runnið til vísindarannsókna. Þetta er enn eitt dæmið um það að einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar hefur mistekist og þeir eiga að taka sig á og hætta þessari vitleysu. Einbeita sér að uppbyggingu atvinnulífsins og uppbyggingu rannsókna og breyta sinni forgangsröð.