Umfang ómældrar yfirvinnu

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:12:51 (595)

[17:12]
     Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. fjmrh.:
  ,,1. Í hve miklum mæli er greidd ómæld (óunnin) yfirvinna hjá ríkinu?
    2. Er greidd ómæld yfirvinna í orlofi?
    3. Er greitt orlof á ómælda yfirvinnu?
    4. Hversu margir ríkisstarfsmenn fá greidda aksturspeninga (bílastyrk) og hve mikilli fjárhæð námu þeir á sl. ári?
    5. Hefur verið reynt að meta hvaða áhrif slíkar yfirvinnugreiðslur hafa á launakjör og launasamninga í landinu?``
    Umræða um það sem ég vil kalla tvöfalt launakerfi hefur ekki verið hávær. Ástæðan fyrir því að ekki er almenn umræða um þennan, mér liggur við að segja ósóma, er að ég tel að ekki liggi fyrir umfang þessa dulda launakerfis. Engin umræða hefur verið um að þessar yfirvinnugreiðslur, sem stundum eru kallaðar metin yfirvinna, en einnig er verið að krefjast orlofslauna á þessa yfirvinnu þó svo að þessar greiðslur fylgi með launum

í orlofsmánuði, sem sagt orlof á orlof.
    Annað sem verra er, slíkar greiðslur eru framkvæmdar. Það er ósvinna að mínu mati.
    Ég hef í höndum kröfugerð hæstaréttarlögmanns á hendur sveitarfélagi þar sem farið er fram á slíkar greiðslur. Þeir sem þekkja til þessara greiðslna vita að einnig eru tilvik þar sem ómæld yfirtíð er hrein launauppbót og ef unnin er raunveruleg yfirvinna þá er greitt fyrir hana sérstaklega.
    Hvers kyns launafeluleikur, sem hér er um að ræða, er til ills og skapar efasemdir og vantraust. Trúnaður milli stétta er brostinn ef óheilindi eru viðhöfð. Þetta eru m.a. ástæðurnar fyrir mínum framlögðu fyrirspurnum.