Umfang ómældrar yfirvinnu

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:15:35 (596)


[17:15]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mun byggja svar mitt á upplýsingum frá starfsmannaskrifstofu fjmrn. En fyrst vil ég aðeins útskýra hugtök sem gætu hjálpað til þegar menn ræða um hugtök eins og ómæld eða óunnin yfirvinna.
    Í launakerfi starfsmannaskrifstofu fjmrn. er yfirvinna greind í tvo þætti. Í fyrsta lagi í mælda yfirvinnu, þ.e. vinna umfram dagvinnu sem fæst við aflestur stimpilklukku eða annarrar ábyrgrar skráningar. Í öðru lagi í metna yfirvinnu, en þá er yfirvinna heils árs áætluð og greiðslu hennar jafnað niður á 12 mánuði. Seinni aðferðinni, sem við köllum metin yfirvinna, er beitt þar sem ekki er með góðu móti hægt að koma við skráningu með hefðbundnum hætti, t.d. hjá ýmsum ábyrgðarmönnum og einyrkjum hvers konar en einnig eru dæmi um að brugðið hefur verið til sama ráðs við gerð kjarasamninga. Þannig er nú um yfirvinnu t.d. hjá skólastjórnendum og yfirlögregluþjónum, hún er ákvörðuð með kjarasamningi.
    Síðan vil ég minnast á aksturspeninga eða bílastyrk. Hjá starfsmannaskrifstofu er notað hugtakið akstursgjald sem er greiðsla fyrir eigin bifreið starfsmanna sé notkun hennar nauðsynleg vegna starfans, svo vitnað sé til orðalags kjarasamninga.
    Ef ég vík að fyrirspurnunum þá er við þeirri fyrstu það að segja, að árið 1992 námu vinnulaun sem fóru um starfsmannaskrifstofuna 30 milljörðum 190 millj. og 260 þús. kr. Yfirvinna og orlof er þar af 8 milljarðar 338 millj. 672 þús. kr. eða 27,62% heildarvinnulaunanna. Metin yfirvinna var þar af 419 millj. u.þ.b. eða rúmlega 5% allrar yfirvinnunnar. Þessi metna yfirvinna skiptist á 1.521 einstakling en þetta ár voru heildarársverk hjá ríkinu tæplega 19.000.
    Svar við annarri fyrirspurn er svohljóðandi: Svo sem áður greindi er metin yfirvinna áætluð yfirvinna heils árs sem jafnað er niður á alla mánuði ársins. Eins mætti auðvitað deila upp í áætlunina með ellefu eða einhverri annarri tölu. Þetta þýðir auðvitað að það er greitt í orlofi af því að það er deilt með tólf en það væri hægt að deila með ellefu alveg eins.
    Þriðja fyrirspurn: Orlof er greitt bæði á mælda og metna yfirvinnu.
    Fjórða fyrirspurn: Ríkið mætir akstursþörf sinni með mismunandi hætti. Í fyrsta lagi getur verið um bifreiðakaup að ræða, þá leggur ríkið til bifreiðina. Bifreið getur verið tekin á leigu, t.d. á bílaleigu. Það geta verið leigubílar sem teknir eru og síðan er það samningur við starfsmann um afnot bifreiðar og eins tilfallandi notkun bifreiðar starfsmanns. Þetta er því gert með mjög mismunandi hætti og alveg í föstum skorðum. En þessar greiðslur til starfsmanna ríkisins námu árið 1992 tæplega 424 millj., en heildargreiðslur til starfsmanna sem vinnulaun voru, eins og ég sagði áður, upp undir 32 milljarðar.
    Svar við fimmtu fyrirspurn er --- ég verð að fara hratt yfir sögu tímans vegna --- að sú metna yfirvinna sem mælanleg er í launakerfi ríkis hefur ekki verið sérstaklega skoðuð með tilliti til áhrifa á launakjör og launasamninga í landinu. En þegar tekið er tillit til þess hve lág þessi fjárhæð er í launagreiðslum ríkisins, hvað þá í launum á landsvísu, má ganga út frá því að áhrifin séu mjög lítil.

    Hitt er svo annað mál að það kann að vera að einhver hluti þeirrar mældu yfirvinnu sem tilkynnt er til launakerfis ríkisins mánaðarlega sé ákvarðaður fyrir fram milli stjórnenda og starfsmanna og jafnvel án vinnuframlags. Hversu útbreitt þetta er og hve stór hluti yfirvinnugreiðslna er ákvarðaður með þessum hætti er ógjörningur fyrir mig að ákvarða að sinni en flest bendir til þess að með öflugri stjórntækjum sem við höfum yfir að ráða þá sé minna rými til slíkra athafna og ég tel að ástandið í þessum málum fari batnandi ár frá ári.