Staða forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:26:16 (600)


[17:26]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi: Það er einn forstjóri fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Forstjóraskipti fóru fram hinn 1. okt. sl. eins og kunnugt er. Á hinn bóginn varð það að samkomulagi milli ráðherra og fyrrv. forstjóra að hann tæki að sér sérstök verkefni fyrir stofnunina sem áætlað er að ljúki þann 1. febr. nk. Verkefni þessi eru einkum fólgin í því að vinna að skipulagsbreytingum og hagræðingu sem áætlað er í framhaldi af úttekt á stofnuninni sem nýlega fór fram auk annarra verkefna sem forstjóri mun fela honum. Fyrrv. forstjóri heldur fyrri launum á meðan hann starfar við þetta verkefni.
    Önnur spurning var: Hver eru laun forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins? Laun forstjóra eru samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt launaflokki 167-1 sem nemur 199.158 kr. á mánuði. Að auki greiðir Tryggingastofnun 26.388 kr. fyrir nefndastörf, bílastyrkur er 13.146 kr.
    3. Hver var kostnaður við innréttingu skrifstofu handa fyrrv. forstjóra í húsi Tryggingastofnunar? Svar: Fyrrv. forstjóri hefur vinnuaðstöðu í herbergi sem er 15,86 fermetrar að stærð. Húsögn, þ.e. skjalaskápur, skrifborð, þrír stólar, skrifstofustóll og önnur skrifstofuáhöld, kostuðu kr. 185.691 kr. Þessi húsgögn og skrifstofuáhöld munu nýtast stofnuninni að fullu næstu árin.
    4. Verður beiðni um framlag til þessarar breyttu skipunar í frv. til fjáraukalaga? Svar: Það verður ekki gert, enda rúmast þessi útgjöld innan fjárhagsáætlunar stofnunarinnar sem skýrist m.a. af því að ekki var ráðið að Tryggingastofnuninni í ný störf sem áætlað var á fjárlögum fyrr en seinni hluta ársins.