Héraðslæknisembættin

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:39:10 (604)


[17:39]
     Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Svörin voru í líkingu við það sem mátti lesa úr fjárlagafrv. og við mátti búast, en erindisbréf héraðslæknanna hafa verið lengi í endurskoðun og það er eiginlega spurning á hverju strandar. Lögin hafa breyst á þessum 13 árum frá því að þeir fengu sín erindisbréf og margt sem þarf að taka tillit til. Eins hefur verið gerð hér þál. um skrifstofur heilbrigðismála og þar þarf líka að skýra línurnar ef af þeim verður. Hlutverk héraðslækna er margþætt og þeim er ekki ætlaður tími eða starfsaðstaða til að sinna þessum verkum og ef þeirra hlutverk þykir lítið í stjórnkerfinu þá er ekki hægt að ætlast til meira miðað við þá aðstöðu sem þeir búa við. En það er sóun á starfskröftum að nýta ekki þessa embættismenn betur og koma á valddreifingu í heilbrigðisstjórnun landsins. Þetta með afleysingarnar er mjög óþægileg staða að biðja um afleysingar eftir því sem hver og einn treystir sér til og vill leggja á sína samstarfsmenn með fjarveru.
    Ég fékk skýringar á því hvert eigi að flytja verkefni frá héraðslæknisembættinu í Reykjavík en þar eru unnin störf sem það embætti hefur eingöngu sinnt og það má vera að það sé hægt að koma þeim yfir á önnur embætti en þá mætti líka líta til rannsóknarlögreglunnar og annars ráðuneytis í því sambandi.