Skrifstofur heilbrigðismála

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:44:38 (606)


[17:44]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint tveimur fsp. Í fyrsta lagi: ,,Hvernig miðar undirbúningi að stofnun skrifstofu heilbrigðismála í kjördæmum landsins samanber ályktun Alþingis 7. febr. 1991?``
    Tilvitnaðri þál. var vísað til nefndar sem skipuð var í september 1991 og falið var að endurskoða lög um heilbrigðisþjónustu. Nefnd þessi sendi ráðherra tillögur sínar um mánaðamótin apríl/maí sl. Nefndin sendi sem fskj. með frv. hugmyndir um héraðsráð, skrifstofur héraðsráðs og héraðslækna. Í frv. er þó ekki að finna tillögur um lagabreytingar hér að lútandi.
    Tillögur þessar hafa verið um skeið til skoðunar í heilbr.- og trmrn. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvenær og hvort um framlagningu frv. til laga um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu í samræmi við tillögur nefndarinnar verði að ræða m.a. í ljósi þess að tveir nefndarmenn voru með fyrirvara um tiltekin ákvæði í frv.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hvernig samrýmist áformaður niðurskurður fjárveitinga til héraðslæknisembættanna ályktun Alþingis um uppbyggingu stjórnsýsluþáttar heilbrigðisstofnana úti í landshlutunum og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, þar á meðal á sviði heilbrigðismála?``
    Ályktun Alþingis um uppbyggingu stjórnsýsluþáttar heilbrigðisstofnana úti í landshlutum sem ítrekuð var í 5. gr. íslenskrar heilbrigðisáætlunar frá 19. mars 1991 hafa ekki fylgt fjárveitingar sem gera uppbyggingu þessa mögulega. Ráðuneytið hefur því ákveðið að á meðan fjárveitingar fást ekki til uppbyggingar stjórnsýsluþáttar heilbrigðisstofnana úti í landshlutunum verði starfsemi héraðslækna á landinu annars staðar en í Reykjavík svipuð. Þetta þýðir að einum heilsugæslulækni í hverju umdæmi verður falið að sinna jafnframt héraðslæknaskyldum samkvæmt lögum og reglugerðum. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga mun væntanlega treysta mjög alla nauðsynlega stjórnsýslu heima í héraði. Tek ég undir með fyrirspyrjanda í þeim efnum, og ekki síst á vettvangi heilbrigðismála sem og annarra málaflokka.
    Ég vænti þess að viðkomandi sveitarstjórnir muni gæta þess þegar þær endurmeta og raða í forgangsröð á nýjan leik þegar þessi verkefni eru komin heim í hérað að hafa m.a. þau mál sem fyrirspyrjandi nefndi í forgangi.