Jöfnun húshitunarkostnaðar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:02:18 (613)


[18:02]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. fór með margar tölur en hann fór ekki með það sem máli skipti. Hann minntist ekki á yfirlýsingu iðnrh. Alþfl. frá 1991 og þáltill. sem lögð var hér fram fyrir síðustu alþingiskosningar sem lýsti stefnu Alþfl. í þessu máli sem var að lækka húshitunarkostnað niður í 5 þús. kr. á mánuði á næstu 2--3 árum. Hæstv. iðnrh. kom ekki inn á það hvort því markmiði hefði verið náð. Það átti að gerast í þremur skrefum og auknar niðurgreiðslur í júní 1991 voru fyrsta skrefið af þessum þremur. Og

spurningin er: Hvað var um hin tvö skrefin? Við sem borgum þessa háu reikninga bíðum eftir efndum frá iðnrh. Alþfl. og það er spurning hvort við þurfum að bíða mjög lengi eða hvort við megum vænta þess að þurfa enn að skipta um mann í þessu ráðuneyti áður en við fáum að sjá reikninga upp á 5 þús. kr. en ekki hærri.