Jöfnun húshitunarkostnaðar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:06:49 (616)


[18:06]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er einfaldlega ósatt að það hafi ekkert gerst frá 1. júní 1991. Það kom mjög glögglega fram í mínu máli hér áðan að frá þeim tíma hefur hvort tveggja gerst að Landsvirkjun hafi aukið afslátt sinn og að ríkissjóður hafi aukið niðurgreiðslur sínar þannig að ég lýsi hv. þm. ósannindamann að því að það hafi ekkert gerst.
    Í öðru lagi skulum við ekki heldur gleyma því að það hefur á sama tíma bæst við, sem var raunar inni í þáltill. sem samþykkt var hér á hinu háa Alþingi, að ríkisstjórnin hefur gert ráðstafanir til þess að yfirtaka skuldir af hitaveitum þannig að þær gætu náð fram lækkun á orkuverði. Það hefur m.a. gerst í kjördæmi okkar hv. þm. á Suðureyri. Ég vil aðeins benda á það hv. þm. til umhugsunar að menn eru nú ekki svo langt frá því marki sem þeir settu sér þegar tillit er tekið til þeirra afslátta sem hafa verið gefnir, m.a. vegna þess

að fyrrv. iðnrh. og þáv. ríkisstjórn tók þá ákvörðun að yfirtaka skuldir bæði Rariks og Orkubús Vestfjarða sem stuðlaði að 5% lækkun á útseldu verði frá því orkubúi og gerði því fært af því að aðrir en þeir þurfa að borga skuldirnar sem hefur verið stofnað til, að veita enn frekari afslátt. Og til upplýsingar, virðulegi forseti, vil ég aðeins geta þess að ef tekið er tillit til virðisaukaskattsins og miðað er við verðuppfærslu samkvæmt vísitölu á upphaflegum fyrirheitum um 5 þús. kr. útgjöld á mánuði, þá ætti hitunarkostnaður vísitöluhússins nú að vera á ári 78.145 kr. Hann er hjá Orkubúi Vestfjarða 81.253 kr. þannig að það vantar nú ekki mikið á að hitunarkostnaður á svæði Orkubús Vestfjarða á ári sé sá sem að var stefnt. (Gripið fram í.) Það munar hins vegar nokkru meiru á svæði Rafmagnsveitna ríkisins. Þar er þessi orkukostnaður á vísitöluhúsinu nú 94.585 eða um 13 þús. kr. hærri en hjá Orkubúi Vestfjarða.