Vatnaflutningar til Fljótsdals

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:11:52 (618)


[18:11]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrsta spurning hv. þm. hjóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hafa hugmyndir um að veita Jökulsá á Fjöllum til Fljótsdals vegna virkjana austan Arnardals og í Fljótsdal verið bornar undir iðnrn.?`` Svarið við þessari spurningu er nei. Það hefur ekki verið gert.
    Önnur spurning hljóðar svo: ,,Telur ráðherra ráðlegt að láta undirbúning orkuframkvæmda ganga lengra en orðið er án þess að könnuð séu viðhorf Alþingis án þeirrar röskunar á umhverfi sem framangreindar hugmyndir um vatnsveitu og orkumannvirki hafa væntanlega í för með sér?`` Svarið við þessari spurningu hljóðar svo: Samstarfsnefnd iðnrn. og Náttúruverndarráðs um orkumál, SINO, hefur undanfarna tvo áratugi fjallað um umhverfisathuganir vegna virkjunarhugmynda, einkum vatnsorkuvera. Í nefndinni sitja fulltrúar Náttúruverndarráðs, iðnrn., Landsvirkjunar, Orkustofnunar og Rariks, auk þess sem fulltrúi umhvrn. hefur setið fundi sem haldnir hafa verið á þessu ári.
    Nefndin hefur á starfstíma sínum oft fjallað um hugmyndir um virkjun Jökulsár á Fjöllum og Jökulsá á Dal. Árið 1989 gerði starfshópur á vegum SINO, skipaður fulltrúum Náttúruverndarráðs, Orkustofnunar og Landsvirkjunar, skýrslu sem bar heitið ,,Virkjunarkostir í Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal, samanburður með tilliti til umhverfis.`` Samtímis lét Landsvirkjun gera úttekt á miðlunarþörf. Í framhaldi af þessum athugunum fór fram á vegum Landsvirkjunar lausleg endurskoðun á áætlun um þá virkjunarkosti sem helst þóttu geta komið til greina. Þessi vinna var kynnt á fundi SINO í janúar 1992. Í febrúar sama ár var ákveðið að tillögu fulltrúa Náttúruverndarráðs að láta gera samanburð af virkjunaráhrifum mismunandi virkjunarleiða og lögðu fulltrúar ráðsins til að dr. Kristján Þórarinsson líffræðingur yrði ráðinn verkefnastjóri og að hann ræddi við þá einstaklinga sem unnið hefðu að rannsóknum á svæðinu og fengi nokkra þeirra til liðs við sig. Tillagan var samþykkt og tóku Landsvirkjun og Orkustofnun að sér að greiða kostnað við verkefnið.
    Verkefnishópurinn kynnti skýrslu sína á fundi í júní sl. Í skýrslunni segir að markmiðið með úttektinni sé ,,að nota fyrirliggjandi upplýsingar til að gera upp á milli virkjunarútfærslna á Austurlandi út frá umhverfisverndarsjónarmiðum þannig að frekari áætlanagerð sé beint að þeim útfærslum sem skástar þykja og frá þeim útfærslum sem síður þykja koma til greina.``
    Í formála segir verkefnisstjóri einnig: ,,Það er ekki markmið þessa verkefnis að leggja fullnaðarmat á umhverfisáhrif virkjunarkosta né að leggja til fullnægjandi grunn að ákvörðunum stjórnvalda um hvort rétt sé að ráðast í stórvirkjanir á Austurlandi eða ekki. Val á milli virkjunarkosta byggir einkum á þeim atriðum sem eru mismunandi á milli kostanna, en tekur ekki tillit til umhverfisspjalla sem eru sameiginleg öllum kostum. Markmiðið á þessu stigi er einungis að aðstoða hönnuði við að beina áframhaldandi hönnunarvinnu á eins umhverfisvænar brautir og kostur er. Þetta er gert með því að reyna að útiloka verstu útfærslurnar strax og benda á helstu agnúa þeirra tillagna sem þá standa eftir þannig að reyna megi að draga úr áhrifum þeirra með bættri hönnun.``
    Á fundi SINO 22. júlí sl. var ákveðið að láta fara fram athugun á gróðurfari í Arnardal, enda gerði verkefnisstjórnin fyrirvara þar um við samanburð á umhverfisáhrifum miðlana í Fagradal og Arnardal. Jafnframt er verið að kanna ýmsa aðra þætti varðandi umhverfismál hugsanlegra virkjana á svæðinu, sem svo varðandi mikilvægi lónsstæðis við Jökulsá á Dal fyrir hreindýr á burðartíma, áhrif virkjana og rennsli á aurburð varðandi farveg Lagarfljóts til þess að meta hvaða aðgerða er þörf til þess að koma í veg fyrir að aukið rennsli í fljótinu valdi landrofi. Ég tel að undirbúningur þessa máls sé í eðlilegum farvegi. Það er verið að afla gagna og vinna að rannsóknum til að hægt sé að móta stefnu um það hvort og þá með hvaða hætti Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal verði virkjaðar. Ég vísa í því sambandi til orða dr. Kristjáns Þórarinssonar sem ég hef vitnað til.
    Ég vek jafnframt athygli á að um þetta mál verður fjallað í samræmi við þær leikreglur sem Alþingi hefur sett. Þannig þarf að sjálfsögðu að fara fram umhverfismat vegna framkvæmda einnig og ekki síður vegna skipulags. Áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar um val virkjunarkosta verður eðlilega haft um það samráð við heimaaðila, svo sem sveitarstjórnir og alþingismenn, og þeim gefinn kostur á að kynna sér virkjunarkostina rækilega og láta í ljós álit sitt. Málið er hins vegar langt í frá komið á ákvörðunarstig, enda ekki í vændum neinir þeir samningar um raforkusölu sem kalla á virkjun af þeirri stærðargráðu sem svokölluð Austurlandsvirkjun með miklum miðlunarmannvirkjum væntanlega yrði.