Vatnaflutningar til Fljótsdals

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:19:14 (621)


[18:19]
     Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans svör. Í svari hæstv. iðnrh. komu fram upplýsingar um rannsóknir sem fram hafa farið í tengslum við þessi virkjunaráform og í raun og veru held ég að einmitt upplagið á þeim rannsóknum sýni fram á að sú aðferð sem hefur verið notuð til þess að nálgast rannsóknarverkefnið orkar tvímælis. En aðferðin sem farin er er sú, eins og réttilega var bent á hjá hv. 3. þm. Reykn., að það eru fyrst settir upp virkjunarkostir og þeir byggjast á vatnaflutningum milli héraða og síðan eru rannsóknaraðilar beðnir að meta og forgangsraða þessum virkjunarkostum. En í sjálfu sér hefur ekki verið tekin nein grundvallarafstaða til þess hvort það er rétt og í samræmi við almenn umhverfissjónarmið að flytja vötn milli héraða til þess að virkja þau. Og þeir aðilar sem hafa unnið að þessum umhverfisrannsóknum hafa ekki verið spurðir um þetta í sjálfu sér. Þessar grundvallarspurningar eru því þannig að þeim hefur ekki verið svarað. Þess vegna leyfi ég mér að efast um að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að það hafi verið spurt um það frá umhverfissjónarmiði í sambandi við þessar áætlanir, hvort virkja eigi með þessum hætti. Það hefur fyrst og fremst verið spurt um hvernig það verði gert og farið fram umhverfismat á þeim þáttum.
    Ég vil einnig taka það fram að lögin um mat á umhverfisáhrifum koma ekki hér til álita, vegna þess að hér er ekki um framkvæmdir að ræða heldur er um áætlanir að ræða. Spurningin varðaði það kannski fyrst og fremst hvort það væri eðlilegt að halda áfram slíkum rannsóknum, áætlunum um uppbyggingu á hlutum eins og þessum, og ganga út frá verði sem er reiknað út frá þessum forsendum, á meðan svo stórum grundvallarspurningum væri kannski ósvarað. Sjálfur er ég hlynntur nýtingu fallvatna landsins og orku landsins til iðnaðaruppbyggingar og er mér því mjög annt um að þessir hlutir séu á traustum grunni.