Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna átaks í sameiningu sveitarfélaga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:50:28 (633)


[18:50]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Hann nefndi í sinni ræðu ýmis verkefni sem eru bæði innan vegáætlunar og utan hennar og eru öll saman þörf og góð og er vonandi að í það verði ráðist, a.m.k. þau sem ekki eru í vegáætlun, sem fyrst. Hins vegar var svar ráðherra skýrt þegar kom að því að draga saman niðurstöður í lokin. Það var að mínu mati á þá lund að ríkisstjórnin ætlar ekki að hafa forgöngu um það að breyta vegáætlun hvernig svo sem þessar kosningar fara. Það var alveg skýrt.
    Hæstv. ráðherra vísaði þessu til sveitarstjórnarmanna og þingmanna að þeir hittust einhvern tíma í framtíðinni og veltu fyrir sér hvort ástæða væri til að leggja til breytingu á gildandi vegáætlun, en það kom alveg skýrt fram hjá hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin ætlar ekki að hafa frumkvæði að því. Ég dreg þá ályktun af því að ríkisstjórnin ætli ekki að leggja til aukið fé til vegamála á þessu árabili svo að unnt verði að taka inn verkefni sem þarf að ráðast í svo að sameining verði möguleg en eru ekki innan vegáætlunar.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hreinskilnina í þessu máli en hún tekur að öllu leyti

til baka þá samþykkt sem getið er um að gerð hafi verið á ríkisstjórnarfundi í september sl. og hæstv. félmrh. kynnti í blaðagrein 30. sept. sl.