Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna átaks í sameiningu sveitarfélaga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:52:31 (634)


[18:52]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég hafði ekki nægilegan tíma til að ljúka ræðu minni áðan. Ég ætla að reyna að koma að þeim efnisatriðum sem ég átti eftir.
    Það sem ég sagði áðan var að það er eðlilegt þegar fyrir liggur hvort eða hvaða sveitarfélög sameinist að athuga samgöngumálin í því tilliti að reyna að styrkja slíka sameiningu og ég tel að einn liðurinn í því sé sá að endurskoða vegáætlun með hliðsjón af stækkun sveitarfélaga um leið og ég tel eðlilegt að til endurskoðunar á hafnaáætlun geti komið þegar við erum að tala um stofnun hafnasamlaga og breyttar forsendur með stækkun sveitarfélaga eða þjónustusvæðis einstakra hafna, þannig að ummæli hv. þm. voru ekki rétt. En á hinn bóginn er honum kunnugt um að þannig er staðið að gerð vegáætlunar hverju sinni og endurskoðun hennar verður hafin nú síðari hluta þessa vetrar vegna áranna 1995 og 1996, þá er eðlilegt að inn í þá endurskoðun komi breyttar forsendur og breytt viðhorf sem kunna að skapast vegna sameiningar sveitarfélaga þannig að það er ekki rétt ályktun hjá hv. þm. að ég hafi að einhverju leyti talað öðruvísi en hæstv. félmrh. Ég sagði einungis að á þessari stundu er ógerningur að gera sér grein fyrir því hvaða sveitarfélög sameinist eða hvaða sérstöku þarfir kunni að rísa af því tilefni.