Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 14:46:39 (651)


[14:46]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993 liggja nú hér enn fyrir. Eins og hv. 2. þm. Austurl. hefur þegar farið í gegnum, þá sýnir það sig auðvitað að við hv. stjórnarandstöðuþingmenn höfðum rétt fyrir okkur þegar við spáðum því að fjárlög ársins 1993 yrðu ekki afgreidd með 6,2 milljarða kr. halla eins og lagt var upp með, heldur er hér talað um halla sem nemur 12,3 milljörðum. En ég held að við getum öll verið nokkuð viss um að sá halli verður enn meiri þegar ári lýkur.
    Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan, en fjárln. Alþingis hefur lagt á það mikla áherslu að ráðuneyti og stofnanir greiði ekki út fé sem ekki er heimild fyrir. Og von okkar var sú að fjáraukalög mundu verða óþörf í meira mæli en áður. Hér hefur legið fyrir þinginu um nokkurra ára skeið og því miður ekki fengið afgreiðslu, frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði sem fjárln. og raunar tvær hafa flutt. Von okkar er nú að á þessu ári náist það frv. í gegnum hið háa Alþingi.
    Við höfum einnig reynt að beita okkur fyrir því að hægt sé að lesa saman ríkisreikning og fjárlög. Eins og frá ríkisreikningi hefur verið gengið hefur það verið nær ógerlegt og við eigum von á því að nefnd sem er að fjalla um þau mál ljúki nú loks störfum eins og hæstv. ráðherra hefur lofað fyrir næstu

áramót.
    Það er annað sem hv. fjárln. hefur gert að umræðuefni og lagt nokkra áherslu á, en það er að safnliðir sem fjárln. leggur vinnu í að deila út, verði síðan ekki greiddir á allt annan hátt þegar kemur til ráðuneytanna og ég mun koma aðeins að því síðar í sambandi við mál sem kemur einmitt fram í þessa veru hér í frv. til fjáraukalaga.
    En ég hyggst fara í gegnum ráðuneytin eitt á eftir öðru og ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að hefja mál mitt með því að mæla fyrir brtt. sem við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og sú sem hér stendur höfum borið fram við 3. gr. en það er 13 millj. kr. framlag til Hæstaréttar vegna yfirvinnu sem Hæstiréttur hefur ákveðið að greiða starfsmönnum sínum.
    Það er óþarfi að fara mörgum orðum um þetta mál. Það hefur þegar hlotið nokkra umfjöllun í fjölmiðlum. Við teljum það ekki verjandi að einstakar stofnanir geti ákveðið laun sín sjálfar. Í þessu tilviki er það Kjaradómur sem á að annast ákvarðanir um laun hæstaréttardómara og ég vil taka það fram fyrir mitt leyti að í orðum mínum felst ekki að ég telji að hæstaréttardómarar hafi of há laun. Ég tel hins vegar að það sé óhæfa með öllu að einstakar stofnanir taki fram fyrir hendurnar á Kjaradómi og ákveði sér laun sjálfar. Það gefur auga leið hver áhrif það hefði ef fleiri færu að þeirra dæmi, enda taka dómarar við Hæstarétt fram í greinargerð frá réttinum að hið endanlega ákvörðunarvald liggi hjá hinu háa Alþingi. Þess vegna hljóta hv. þm. að greiða um það atkvæði við afgreiðslu þessa frv. hvort þeir eru því sammála að hæstaréttardómarar ákveði þessa viðbótargreiðslu sjálfum sér til handa að upphæð 13 millj. kr.
    Þá er hér liður sem hlýtur að vekja athygli manna, en það er liður 02-872. Lánasjóður ísl. námsmanna. Það er alkunna að margir námsmenn hafa nú hrökklast frá námi. Sérstaklega hefur það bitnað á konum sem hafa vikið úr námi til þess að vinna fyrir fjölskyldum sínum. Menn tala hins vegar hátt um það að tekist hafi að spara í útgjöldum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Hér er m.a. farið fram á að framlag ríkissjóðs lækki hlutfallslega jafnmikið og endurskoðuð áætlun um lánveitingar sjóðsins í ár bendir til og það er beðið um að taka 60 millj. frá sjóðnum. Þetta kemur okkur spánskt fyrir sjónir sem eigum börn enn í námi og teljum að nær hefði verið að nýta þessar 60 millj. til handa þeim sem nú verða að hverfa frá námi vegna þrenginga sem sjóðurinn hefur valdið þeim.
    Þá er óhjákvæmilegt að víkja hér að liðnum 02-982 og ég vil benda hv. þm. á að síðasta setningin í aths. um þann lið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í annan stað er borin upp tillaga um 5,3 millj. kr. aukafjárveitingu vegna kaupa á sýningarrétti kvikmynda til afnota fyrir grunnskóla.``
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálaleg samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við ýmsa opinbera aðila kemur fram að keyptar hafa verið í leyfisleysi, án heimildar, tvær kvikmyndir að upphæð 5,3 millj. sem eru kvikmyndirnar ,,Í skugga hrafnsins`` og ,,Óðal feðranna`` til sýningar í grunnskólum eins og þar segir. Þar kemur jafnframt fram að ekkert samráð var haft við Námsgagnastofnun og engin ósk frá henni lá þar fyrir. Aðrar kvikmyndir sem keyptar hafa verið til stofnunarinnar, og þessar tvær voru þær einu á árinu 1993, eru kvikmyndir sem eru byggðar á bókum sem grunnskólabörn hafa verið að lesa. En hér er ekkert um það að ræða. Þar sem þessi skýrsla verður tekin til umræðu hér í næstu viku skal ég ekki lengja mál mitt mjög. En hér er einfaldlega sagt frá því í skýrslu Ríkisendurskoðunar að eftir að kvikmyndamaðurinn hafði fengið neitun um framlag frá norrænum kvikmyndasjóði hafi hann komið að máli við ráðherra og niðurstaða þeirra fundar var að menntamálaráðuneyti Íslendinga greiddi 5,3 millj. kr. skuld í Landsbanka Íslands og þar segir að menntmrh. segist hér hafa tjáð Ríkisendurskoðun að hann hafi sjálfur tekið ákvörðun um kaup á þessum myndum. Hann tekur enn fremur fram að ráðherra hefði fullyrt að auk hans hefðu aðstoðarmaður hans, ráðuneytisstjóri og deildarstjóri, fjallað um málið og hefði enginn þeirra lagst gegn kaupunum. Námsgagnastofnun hefur hins vegar ekki tekið afstöðu til þess hvort umræddar myndir henti til notkunar í skólum, enda hefur erindi þess efnis ekki enn borist stofnuninni frá menntmrn.
    Þarna eru sem sagt blygðunarlaust settar 5,3 millj. til aðstoðar einstaklingi í bænum undir því yfirskini að það eigi að sýna þessar myndir í grunnskólum. Það hefur þegar komið fram að þær eru báðar bannaðar börnum. Og ég vil ráðleggja landsmönnum, ef þeir eru hart keyrðir í peningamálum, að fara til fundar við hæstv. menntmrh. og spjalla um fjármál sín og vita hvort ekki finnst flötur á því að greiða skuldir þeirra sem bágast eiga. Ég mun að sjálfsögðu ásamt félaga mínum, hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, leggja fram brtt. við þessa grein einnig um að þetta falli niður. Það er fullkomlega fráleitt að vera að troða upp á Námsgagnastofnun kvikmyndum sem hún hefur ekkert við að gera.
    Það eru einmitt svona hlutir sem fjárln. hefur verið að reyna að berjast gegn, að ekki sé farið með fjármuni landsmanna eins og ríkiskassinn sé í einkaeign.
    Það er kannski einmitt menntmrn. sem er viðkvæmast ráðuneyta fyrir slíkum greiðslum. Það hefur margsinnis sýnt sig að ráðherrar hafa ekki hirt um þær úthlutanir sem fjárln. hefur ákveðið, einfaldlega vegna þess að þær hafa ekki birst í smáatriðum í fjárlögunum sjálfum og ekki heldur í nál. Nú hefur þeirri hugmynd verið fleygt í fjárln. að framvegis verði þessar úthlutanir tíundaðar í nál. þannig að fyrir liggi vilji nefndarinnar um hvernig þessum fjármunum skuli skipt, því að þarna er oft um verulegar upphæðir að ræða.
    Hæstv. forseti. Það vekur athygli hér á bls. 39 hversu ónákvæm fjárhagsáætlun sýslumannsembættisins í Reykjavík hefur verið. Það er sýnt fram á að útgjöld embættisins fari a.m.k. 15 millj. kr. umfram heimildir fjárlaga í ár. Það er að einhverju leyti skýrt með barnsburðarleyfum, en ég held að svo margar konur geti nú ekki verið við það embætti að það geti nálgast þessa upphæð þannig að ég held að eitthvað annað hljóti að koma til ella er þetta embætti frjósamara en almennt gerist um opinber embætti í landinu. ( MB: Það eru fleiri.) Væri það vissulega gleðilegt.
    Á bls. 40, hæstv. forseti, er liður 07-981 þar sem talað er um að sótt sé um 60 millj. kr. til atvinnumála kvenna. Þar er um að ræða hluta þeirrar fjárhæðar sem ríkisstjórnin ákvað að beita sér fyrir að veitt yrði til atvinnuskapandi aðgerða í tengslum við gerð kjarasamninga fyrr á árinu. Svo segir hér, með leyfi hæstv. forseta: ,,Félmrn. hefur skipað starfshóp`` o.s.frv. Síðan segir: ,,Ráðuneytið leggur til að um 35 millj. kr. fari til fyrirtækjarekstrar einkaaðila af margbreytilegum toga, um 20 millj. kr. fari til ýmissa verkefna á vegum sveitarfélaga og um 5 millj. kr. fari til námsaðstoðar til að skapa atvinnulausum konum betri aðstöðu á vinnumarkaði.``
    Hér er sama vandamálið uppi að fjárln. hefur auðvitað ekkert haft um að segja hvernig þessi upphæð skuli skiptast og það kemur mér spánskt fyrir sjónir að 5 millj. þurfi til námsaðstoðar. Ég man ekki betur en í lögum um atvinnuleysistryggingar geti fólk átt kost á fjárframlögum til námskeiðahalds og framhaldsmenntunar þannig að mér þykir mjög kyndugt að fara að nota hluta af þessum 60 millj. til slíkra hluta. Það hljóta að vera aðrar leiðir til þess.
    Í kaflanum 08 við lið 271 er dálítill sorgarsöngur. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að auki lítur út fyrir að áform um 50 millj. kr. sparnað í fæðingarorlofi og 75 millj. kr. sparnað með einföldun og samræmingu bóta nái ekki fram að ganga í ár. Á móti kemur að horfur eru á að útgjöld vegna lífeyristrygginga hafi verið ofmetin um 185 millj. kr. í fjárlögum en slíkt frávik má telja innan eðlilegra skekkjumarka.``
    Hér sést enn og aftur að allar þessar tilfærslur innan tryggingakerfisins koma að engu gagni, sparnaðurinn er enginn. Og þó að hæstv. heilbrrh. sem við höfum haft á þessu kjörtímabili hafi jafnvel reynt að hafa áhrif á barnsfæðingar, þá hefur það nú ekki tekist og áætlaður sparnaður í fæðingarorlofi hefur ekki tekist þar af leiðandi. Ég veit ekki hvernig á að taka svona yfirlýsingum, en tölur sýna að hér koma útgjöld á móti sparnaði þannig að þegar upp er staðið virðist allt standa á sléttu hvernig sem menn brjótast um á hæl og hnakka.
    Það er gleðilegt fyrir landsmenn í Norðurlandskjördæmi eystra að þar er blómlegt um þessar mundir og eftir umtalsverðar vegaframkvæmdir í Ólafsfirði þá skal einnig flýta hafnarframkvæmdum. Ekki skal ég hafa á móti þessu. En það er lítið annað sem hæstv. samgrh. þarf á aukafjárlögum en þessar framkvæmdir í kjördæmi sínu og auðvitað björgunarfé til Herjólfs og verður það nú sjálfsagt ekki fyrsta upphæðin sem við fáum að berja augum.
    Hæstv. forseti. Þrátt fyrir allt hygg ég að aukafjárlög séu minni að vöxtum en oft áður og kannski mjakast þó hægt fari að aðilar geri raunhæfar fjárhagsáætlanir þannig að fjárlög séu ekki jafnórafjarri raunveruleikanum og oft var áður. En hitt er annað mál að ríkisstjórnin er þar auðvitað mikill örlagavaldur og með ákvörðunum sem átti að taka en ekki eru teknar eru auðvitað bæði fjárlagagerð ársins 1994 og raunar aukafjárlög meira og minna í uppnámi. Við höfum ekki fengið svar við því hvers vegna milljarðurinn sem átti að koma til atvinnuskapandi verkefna verður ekki nýttur á þessu ári. Sá siður hefur verið tekinn upp að menn geti fært ónýtt framlag yfir á næsta ár og þá langar mig að spyrja: Kemur þá samt hinn milljarðurinn sem samið var um við verkalýðshreyfinguna? Og þannig mætti lengi spyrja. Heilsukortin sem áttu að standa vörð um heilbrigðiskerfið svo það hryndi ekki til grunna virðast vera úr sögunni og hvað kemur þá? Hvernig á hv. fjárln. að vinna störf sín nú, sem situr yfir því dag hvern að berja saman fjárlög næsta árs, þegar ríkisstjórnin eða landsfundur Sjálfstfl. eða einhverjir aðilar eru að berja niður það sem þegar er að finna í fjárlögum næsta árs. Það segir sig auðvitað sjálft að slík vinna er mestan part marklaus og það væri þess vegna gott að vita eiginlega tvennt:
    Í fyrsta lagi, er þetta umtalsverður hluti af aukafjárveitingum ársins 1993 sem hér er beðið um eða er að vænta verulegra upphæða enn, áður en ári lýkur?
    Í öðru lagi, hver verða örlög þess fjárlagafrv. fyrir árið 1994, sem hér liggur fyrir og verið er að vinna að? Verður það tekið upp vegna ákvarðana sem teknar voru um helgina? Eða eigum við að halda áfram að vinna í fjárlögum sem enga þýðingu hafa?
    Þetta hefði ég nú gaman af að heyra hæstv. ráðherra upplýsa okkur um og ekki síst hvort milljarðurinn sem átti að koma á næsta ári kemur til viðbótar við milljarðinn sem ekki var notaður nema að litlu leyti eða verður farið fram hjá því að greiða hann?
    Hæstv. forseti. Það þjónar kannski ekki miklum tilgangi að lengja þessa umræðu á þessu stigi. Málið kemur auðvitað til kasta hv. fjárln. og er raunar á dagskrá þegar á morgun svo ég mun auðvitað vinna í því þar. En það er satt að segja heldur raunalegt að sitja í fjárln. og fjalla um þau skelfilegu mistök sem hér hafa verið gerð.