Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 15:06:40 (652)


[15:06]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara einstökum spurningum um einstaka liði sem fram komu hjá hv. þm. Mér gefst tækifæri til þess síðar. En ég vil vegna umræðna um fjárlög næsta árs sem reyndar eru ekki á dagskrá núna, þó segja það, að við teljum okkur í fjárlagagerðinni hafa farið að þeim samningum sem gerðir voru við verkalýðshreyfinguna. Viðræður hafa staðið yfir við aðila vinnumarkaðarins upp á síðkastið svo ég get ekki skotið fyrir það loku að það verði ekki gerðar einhverjar breytingar í framhaldi af því. Þessi stjórn er ekki svo föst og óbreytanleg að hún vilji ekki eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins til að halda vinnufrið í landinu.
    Í öðru lagi var rætt um heilsukortin. Það er nú þannig að þótt landsfundur Sjálfstfl. sé merk stofnun þá hefur hann ekki yfir Alþingi að segja. En því til viðbótar má geta þess að landsfundur Sjálfstfl. ályktaði ekkert um heilsukortin og hefur komið mjög skýrlega fram að það er á misskilningi byggt, enda var þar verið að tala um stefnumótun til lengri tíma.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram strax í þessum umræðum sem andsvar við pörtum úr ræðu hv. þm.