Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 15:35:21 (657)


[15:35]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Frv. það til fjáraukalaga fyrir árið 1993 sem hér er til umfjöllunar er á margan hátt athyglisvert og vil ég í örfáum orðum fjalla um það hér við 1. umr.
    Fjáraukalagafrv. ber að sjálfsögðu mjög merki þess samdráttar í þjóðartekjum sem við Íslendingar höfum þurft að búa við og þurfum að búa við á þessu herrans ári 1993. Þjóðartekjur eru minnkandi. Þær koma m.a. fram í minni tekjum ríkissjóðs. Það er minni velta í þjóðfélaginu og þar af leiðandi minni tekjur af veltusköttum og þetta kemur að sjálfsögðu fram eins og sést hér á frv. en tekjur eru áætlaðar að verði 3 milljörðum minni en fjárlög þessa árs gera ráð fyrir.
    Hins vegar eru hinar jákvæðu hliðar efnahagslífsins auðvitað þær að stöðugleikinn sem hér hefur verið og er í verðlagsmálum hefur þau áhrif að öll áætlanagerð er auðveldari og rekstur stofnana verður þess vegna viðráðanlegri. Það er betra að gera áætlanir og betra og auðveldara að halda rekstri stofnana innan áætlana og innan þess fjárlagaramma sem þær eiga að vinna innan. Það má glögglega sjá í þessu frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993 að bein rekstrarútgjöld eru einungis um 1,2 milljarða inni í þessum auknu útgjöldum um ríkissjóð sem frv. gerir ráð fyrir. Þannig eru auðvitað bæði bjartar og örlítið dekkri hliðar á þessu, en ég vil vekja sérstaka athygli á þessum þætti að stöðugleikinn hefur vissulega mjög jákvæð áhrif á rekstur ríkissjóðs og það hefur auðvitað komið í ljós síðustu árin.
    En það er annað sem setur mjög mark sitt á þetta frv. til fjáraukalaga. Það eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem var gengið til í tengslum við kjarasamninga og auka útgjöldin og þá einkum og sérstaklega er það gagnvart stofnkostnaði og viðhaldi eins og fram kemur í frv. en þær aðgerðir eru fyrirhugaðar m.a. til þess að treysta og tryggja atvinnustigið. Það skiptir auðvitað afar miklu máli að reyna að búa svo um hnúta að fjárveitingar geti orðið til þess að efla atvinnu og draga þar með úr útgjöldum ríkissjóðs á hinn bóginn af atvinnuleysisbótum. Auðvitað er það þannig að það hefur margþætta þýðingu að tryggja atvinnuna, ekki einungis að spara ríkissjóði greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði heldur einnig það að bæta þá félagslegu stöðu sem þeir sem verða fyrir atvinnuleysi hljóta að standa frammi fyrir.
    En þegar fjallað er um fjáraukalög, þá hljótum við að líta til þess hvernig staðið er að framkvæmd fjárlaganna. Og það hittist nú þannig á að í morgun var ríkisendurskoðandi á fundi með fjárlaganefndinni þar sem hann fór yfir skýrslu sína um framkvæmd fjárlaga fyrir 6 mánuði ársins og það er auðvitað afar mikilvægt að fylgjast glöggt með því hvernig framkvæmd fjárlaga er. Ég held að óhætt sé að segja að það hafi gengið allvel og framkvæmd fjárlaganna sé innan þess ramma sem áætlanir stóðu til og það er auðvitað afar mikilvægt. Einn stærsti og mikilvægasti þáttur Í starfi fjárln. og reyndar Alþingis er að sjá til þess að það sé eðlilegt aðhald sem framkvæmdarvaldið fær varðandi framkvæmd þeirra fjárlaga sem afgreidd hafa verið frá þinginu og þess vegna held ég að þingið ætti að líta e.t.v. enn frekar eftir því hvernig að verki er staðið þegar fjallað er um fjáraukalög.
    Það er mjög athyglisvert og hlýtur að verða okkur hv. alþm. umhugsunarefni þegar við lítum til þess hvernig á mörgum undanförnum árum hefur verið staðið að framkvæmd fjárlaga. Það er mjög athyglisverð grein í nýlegu fréttabréfi um verðbréfaviðskipti þar sem gerð er athugun á því hvernig fjárlög annars vegar, áform um ríkisútgjöldin hafa verið og svo hins vegar raunveruleikinn. Og það hefur satt að segja komið í ljós að halli á fjárlögum hefur árum saman orðið mun meiri en fjárlög hafa gert ráð fyrir hér á Íslandi. Þetta hlýtur að vera okkur ærið umhugsunarefni og ég held að bæði ríkisstjórn, framkvæmdarvaldið svo og Alþingi þurfi að bæta ráð sitt allverulega en sem betur fer held ég að með stöðugleika í verðlagsmálum ætti að verða auðveldara að vinna að því markmiði að halli verði sem minnstur á fjárlögum og svo hins vegar að við reynum að láta áætlanir standast.
    Það er m.a. hlutverk okkar hv. þm. í fjárln. að fara rækilega yfir bæði fjáraukalögin og frv. til fjárlaga þegar þau eru til meðferðar og ég fæ gott tækifæri til þess að skoða þetta frv. til fjáraukalaga núna eftir 1. umr. og mun því ekki lengja þessa umræðu. En ég vænti þess að okkur takist að afgreiða þetta fjáraukalagafrv. sem allra fyrst vegna þess að ég tel að það sé afar mikilvægt að stofnunum á vegum ríkisins sé það ljóst eftir hvaða ramma þær eigi að vinna og með því sköpum við einnig verulega meira aðhald en þegar lausatök eru á þessu og frumvörp eru ekki afgreidd eins og fyrsta fjáraukalagafrv. hvers árs.
    Með þeim orðum, virðulegi forseti, vil ég ljúka þessari ræðu.