Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 15:44:02 (658)


[15:44]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson, sem er varaformaður fjárln., gerði hér að umtalsefni að við þyrftum að fylgjast vel með framkvæmd fjárlaga og framkvæmd fjárlaga sýndi það að það hefði verið staðið mjög vel að þessum málum. Ég get tekið undir þau orð hans að það er nauðsynlegt að fylgjast vel með framkvæmd fjárlaga en ég get ekki tekið undir það að það hafi verið staðið mjög vel að þessum málum þar sem á bls. 18 í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu 6 mánuðina kemur fram að þrjár umframheimildir eru 2,2 milljarðar kr. Það sem gerir stöðuna aftur skárri er það að óhafin framlög voru nokkru meiri þannig að það stóð í járnum. Það breytir samt ekki því að þessi óhöfnu framlög eru framlög sem koma til greiðslu síðar á árinu eða eru þá færð á milli ára. Eftir stendur að það er farið fram úr þeirri áætlun sem gerð hafði verið fyrir 6 mánuðina á þessu ári um rúma 2 milljarða kr. Og eins og hv. þm. Jón Kristjánsson sagði hér áðan, við erum hér alltaf að tala um stórar upphæðir, margar milljónir og milljarða, en 2,2 milljarðar kr. í umframgreiðslur á þessum fyrstu 6 mánuðum er allmikil upphæð.