Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:03:57 (662)


[16:03]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir síðustu orð hæstv. fjmrh. í ræðu hans áðan um nýbúana og skyldur okkar í þeim efnum. En það kom einnig fram í hans ræðu að ríkisstjórnin stæði öll að þeirri tillögu sem er að finna í frv. undir liðnum Listir og framlög um það að veita 5,3 millj. kr. til kaupa á sýningarrétti kvikmynda til afnota í grunnskóla, eins og stendur í greinargerð. Ég vil þá spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig á að nota þessar kvikmyndir fyrst ríkisstjórnin stendur öll að þessu, hvernig á að nota þessar kvikmyndir? A.m.k. önnur þeirra var bönnuð börnum innan 14 ára og í þeirri mynd er að finna að mínum dómi ofbeldi og manndráp. Því miður er það lýsing á því sem gerðist fyrr á öldum að vísu, ekki sannsöguleg heldur er þar um mynd höfundarins að ræða af þessum tíma, þannig að það hefur auðvitað vakið furðu hvers vegna þessar myndir voru keyptar því þær eru að mínum dómi ekki nothæfar í grunnskólum. Námsgagnastofnun var ekki höfð með í ráðum þegar þær voru keyptar heldur var verið að bjarga kvikmyndaleikstjóranum. En fyrst ráðherrarnir standa að þessu hvernig hugsa þeir sér að nota þessar myndir?