Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:11:08 (666)


[16:11]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við þingmenn erum kannski ekki enn þá alveg búnir að innstilla okkur á þennan skammtaða tíma í 1. umr. en ég ætla ekki að deila um það þar sem ég átti nú hlut að því að koma því á og tel að þar hafi verið vel að verki staðið. En ég átti nokkur atriði eftir sem ég vildi raunar koma hér til þess að benda á og ætla að nýta mér þessar 10 mínútur sem eftir eru til þess.
    Það er í fyrsta lagi að í kaflanum um félmrn. er greint frá því að sótt sé um 60 millj. kr. til atvinnumála kvenna. Þetta er hluti af milljarðinum svokallaða sem átti að fara til atvinnusköpunar, en ég vil vekja athygli á því hér hversu lítill hluti fer sérstaklega til atvinnumála kvenna. Þetta eru aðeins 6% af þeirri upphæð sem áætluð var til atvinnumála og ég tel að hér sé farið illa með, að hafa það ekki stærri upphæð en þetta.
    Í kaflanum um heilbrigðis- og tryggingamál er lagt til, eins og hér hefur komið fram, að auka framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna atvinnuleysisstigsins í landinu. En það sem ég vildi vekja athygli á er að í fjárlagafrv., greinargerð fjárlagafrv. fyrir árið 1994, er talað um að endurskoða löggjöf sjóðsins með það að markmiði að lækka framlög til hans. Í því sambandi er rétt að vekja aftur athygli á því að á síðasta ári voru víkkaðar heimildir til þess að greiða bótaþegum úr sjóðnum og það skýtur því svolítið skökku við að nú skuli allt í einu eiga að fara að endurskoða löggjöfina með það að markmiði að draga úr greiðslum. Ég sé ekki að þetta geti farið heim og saman.
    Ég hef áður vakið athygli á þessum 558 millj. sem eru yfirfærðar heimildir á milli ára og hluti af

þeim milljarði sem á að fara til atvinnusköpunar. Ég ætla ekki að ræða það neitt frekar. En hvað varðar samgrn. þá vil ég enn og aftur vekja athygli á og kannski má líka gera það í sambandi við þennan milljarð sem talað hefur verið um til atvinnusköpunar, þeirri braut sem ríkisstjórnin er að fara inn á með því að ákveða sífellt framlög til einhverra sérstakra verkefna og taka sjálf ákvörðun um það hvernig þeim skuli úthlutað. Það er ekki borið undir Alþingi. Það má nefna Vegagerð ríkisins t.d., þar var áætlað að leggja fram 1.550 millj. í sérstakt átak í vegagerð og það var einnig ákveðið með ríkisstjórnarákvörðunum hvernig því skyldi dreift. Ég tel að þessi braut sem ríkisstjórnin er þarna komin inn á í sambandi við fleiri en eitt atriði og kemur hér fram í ýmsum liðum í fjáraukalögum, sé ekki af hinu góða. Hún dregur úr valdi Alþingis og færir það meira til framkvæmdarvaldsins að taka ákvarðanir um fjárframlög ríkisins.
    Það er svo sem hægt að fara yfir fleiri atriði, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Að lokum vil ég vekja athygli á því að á síðasta ári var ákveðið að Veðurstofa Íslands aflaði sér 10 millj. kr. sértekna með því að láta greiða fyrir þjónustu við innanlandsflugið. Þetta náði ekki fram að ganga á yfirstandandi ári. Þetta er inni nú í fjáraukalögum og verið að fella þessa upphæð niður vegna þess að það hefur ekki náðst að koma þessu ákvæði fram. En þetta er aftur inni í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 þannig að það er greinilega ekki búið að gefast upp á því að ná þessum peningum inn fyrir þjónustu við innanlandsflugið. Það var gagnrýnt mjög hér á síðasta þingi hvort þetta væri rétt stefna, að fara að taka greiðslur fyrir þessa þjónustu, þar sem segja má að hér á landi byggist flugsamgöngur algerlega á veðrinu og það er mjög fljótt að breytast hér. Það þarf sífellt að vera að fá nýjar veðurspár. Og ef það að taka gjald fyrir þessa þjónustu mundi leiða til þess að hættunni væri frekar boðið heim, þá tel ég að það væri mjög illa farið.
    Ég mun síðan að öðru leyti geyma mér það til 2. umr. að fjalla nánar um einstök atriði og að sjálfsögðu hef ég aðstöðu til þess í fjárln. að skoða þetta rækilega.