Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:16:35 (667)


[16:16]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það eru örfá orð til viðbótar inn í þessa umræðu. Hv. varaformaður fjárln. kom þar að í sinni ræðu áðan að hallinn á fjárlögum hefði verið meiri árum saman að lokum heldur en fjárlögin gerðu ráð fyrir og það ætti að vera okkur hv. þm. ærið umhugsunarefni. Það er það vissulega. Það er rétt að fjáraukalög eru með mjög miklum viðbótarheimildum og alveg full þörf á því að fara rækilega yfir það hvort þær heimildir séu raunhæfar. En meginástæðuna núna held ég þó vera þá að fjárlögin eru samþykkt með svo veigamikil atriði óklár og ófrágengin af hálfu ríkisstjórnarinnar. Til dæmis allt þetta föndur með einkavæðingu, að setja inn í fjárlög 1.500 millj. kr. í tekjur vegna einkavæðingar og 330 millj. kr. til rannsókna í Háskóla Íslands sem hluti af þessari einkavæðingu. Niðurstaðan er 100 millj. kr. eftir árið. Það er náttúrlega ekki furða þó að það sé halli á fjárlögum umfram það sem gert er ráð fyrir þegar svona er gert. Og t.d. föndrið með Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og fram og til baka með sölu á þeim veiðiheimildum. Það er náttúrlega engin furða þó það sé halli á fjáraukalögum fram yfir fjárlög þegar slíkt ráðslag er. Og síðan sú staðreynd að þegar fjárlög voru samþykkt síðasta ár voru kjarasamningar lausir í landinu og það gat hver maður séð að kjarasamningar mundu alls ekki nást nema ríkissjóður kæmi þar inn í með verulegt fjármagn. Ég vildi því undirstrika að þetta er ekki neitt náttúrulögmál, við þurfum ekki að leggjst undir feld til að sjá meginástæðurnar. Það er sem betur fer rétt að ýmsar stofnanir hafa staðið þokkalega í stykkinu sem betur fer og ég vildi láta það koma fram. En meginástæðurnar eru auðvitað þessar.
    Ég hef fulla samúð með hæstv. fjmrh. þótt hann viti ekki hvernig á að nota þessar myndir í grunnskólunum. En hins vegar verð ég að segja það að hann hefur fullt höfuðið af hugmyndum um nýjar myndir, m.a. um frændur hans í Víðidalnum, klóra foreldrum sínum á bakinu. Og ég heyri að framkvæmdastjóri sjónvarps er búinn að ræða við fjmrh. um nýjustu mynd sína og sýna honum hana. Vafalaust hafa þeir þá rætt þessar hugmyndir um ný myndverk og ég ætla ekki að blanda mér í það. Vafalaust fáum við á næstu fjáraukalögum einhverjar upphæðir í því, varðanid þá kvikmyndagerð en skemmtilegra væri nú að fjalla um þær við fjárlagagerð. En hæstv. fjmrh. á kannski takmarkaða aðild þarna að þótt hann taki að sér að skera hæstv. menntmrh. ofan úr snörunni.
    En það er eitt atriði að lokum sem ég vildi glöggva mig betur á og vil spyrja hæstv. fjmrh. um þó við höfum komið aðeins að þessu áður í umræðunni, en það er að heimildir um fjármagn til atvinnuskapandi aðgerða verði fluttar á milli ára. Nú er ætlunin samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að 1 milljarður verði á árinu 1994 veittur til atvinnuskapandi aðgerða. Mun þá þetta fjármagn sem fært verður yfir koma til viðbótar því? Ég skil það svo, en ég óska eftir að fá staðfestingu á því hvort sá skilningur minn sé réttur.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hef tækifæri til þess að fjalla um einstök atriði fjáraukalagafrv. nánar í fjárln.