Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 17:16:03 (679)


[17:16]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég veit að hv. nefnd tekur þetta mál til ítarlegrar skoðunar og þar verður tekið á ýmsum þeim álitaefnum sem hv. þm. hafa hér varpað fram í spurnarformi. En mér þykir þó rétt að ítreka það að hér er um að ræða sjálfstæða ákvörðun íslenskra dómstóla. Þeir þurfa ekki að leita til erlendra aðila um úrskurði eins og hv. 2. þm. Suðurl. orðaði. Það er sjálfstætt mat dómara. Frumkvæði í því getur komi frá öðrum hvorum málsaðila eða dómara sjálfum.
    Hv. 2. þm. Suðurl. taldi að sjálfstæði dómarans væru takmörk sett með því að Hæstiréttur gæti breytt niðurstöðu hans ef mál væri kært til Hæstaréttar og það er vissulega rétt. En það byggir á þeirri grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar að við búum við tvö dómsstig þar sem Hæstiréttur Íslands hefur endanlegt úrskurðarvald og getur endurskoðað dóma undirréttar. Og sú staðreynd breytir því ekki að það er íslenskur dómstóll sem endanlega tekur um það sjálfstæða ákvörðun hvort álits er leitað fyrir fram frá EFTA-dómstólnum og það vald er alfarið í höndum íslenskra dómstóla.
    Spurningunni um það hvort álitið er bindandi eða ekki er svarað með mjög skýrum hætti í lögunum. Þetta er ráðgefandi álit. Hver maður getur vitaskuld sagt sér að í mörgum tilvikum a.m.k. hlýtur að verða tekið tillit til þess sem fram kemur í þessu ráðgefandi áliti, en kjarni málsins er sá að það er ekki bindandi og dómari eða dómstóll tekur sjálfstæða afstöðu til þess álits sem þannig er aflað. En af því getur auðvitað verið hagræði að fá að vita fyrir fram um afstöðu EFTA-dómstólsins.
    Ég vildi fyrst og fremst víkja að þessum atriðum vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið. En mér þykir eðlilegt að nefndin fjalli ítarlega um þessi álitaefni og tek undir ummæli hv. þm. sem hér hafa talað um það efni. Hér er vissulega um að ræða mál sem þarfnast gaumgæfilegrar skoðunar og nákvæmrar umfjöllunar hér á Alþingi.