Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 17:24:22 (682)

[17:24]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég held að það þurfi ekkert að deila um það að verið er að flytja hluta af dómsvaldinu úr landi. Ég vil vekja athygli hv. alþm. á 2. gr. þessa frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Með sama hætti og segir í 1. og 2. mgr. 1. gr. getur Félagsdómur leitað álits EFTA-dómstólsins um atriði mála sem eru rekin þar. Úrskurður þess efnis verður ekki kærður til Hæstaréttar.`` --- Ég endurtek: ,,Úrskurður þess efnis verður ekki kærður til Hæstaréttar.`` Síðan segir: ,,Hæstiréttur getur jafnframt kveðið upp úrskurð eins og að framan segir.``
    Félagsdómi er það í sjálfsvald sett hvort hann leitar úrskurðar hjá EFTA-dómstólnum og þá hefur Hæstiréttur ekkert yfir honum að segja ef EFTA-dómstóllinn fellir úrskurð. Hins vegar er honum heimilt, hann þarf ekki að fara út fyrir landsteinana, honum virðist vera heimilt, eða ég skil það svo samkvæmt þessari grein, að hann geti jafnframt kveðið upp úrskurð eins og EFTA-dómstóllinn, bara ekki um sama atriði. Mér sýnist að ekki þurfi nú frekar vitnanna við um það að hér sé um að ræða atriði sem samræmist hvorki efni né anda íslenskrar stjórnarskrár.