Endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 18:20:18 (692)


[18:20]
     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum og hæstv. fjmrh. undirtektir við þessa tillögu. Ég fagna því út af fyrir sig sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. að ríkisstjórnin skuli hafa markað sérstaka útboðsstefnu, það er mjög ánægjulegt. Hins vegar skiptir auðvitað afskaplega miklu máli hvernig raunin verður og þess vegna tel ég að það þurfi að endurskoða lögin um opinberar framkvæmdir til þess að ráðuneytum verði mörkuð skýr leið til að fara eftir við þá útboðsstefnu sem mörkuð hefur verið og ber að fagna.
    Hæstv. fjmrh. nefndi sem dæmi um vandaðan undirbúning væntanlega byggingu hæstaréttarhúss. Það kann vel að vera, það þekki ég ekki og væri fróðlegt að kalla eftir upplýsingum um það þegar þessi tillaga verður til meðferðar í fjárln. ef hún fer þangað eftir þessa 1. umræðu í þinginu. En ég tel einmitt að undirbúningur hæstaréttarhússins væntanlega sé e.t.v. skólabókardæmi um það hvernig hægt er með staðsetningu einnar byggingar að velja e.t.v. allra dýrasta kost sem völ er á. Það er valin dýr lóð og erfið staðsetning inni á milli húsa sem er alveg ljóst að þarf að taka tillit til og það er valinn staður þar sem er alveg ljóst að byggingarhraði verður að vera mjög mikill og e.t.v. meiri en hagkvæmnissjónarmið mundu telja að væri æskilegt. Ég tel því að bygging væntanlegs hæstaréttarhúss sem ég tel að vísu, þó það skipti ekki máli í þessari umræðu, sé alveg á kolómögulegum stað. Ég tel að lóð undir hæstaréttarhús hefði átt að finna á öðrum stað í borginni. Það er auðvitað sér mál en það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvernig fyrirhugað er að standa að þessari framkvæmd.
    Ég fagna því einnig sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að það skuli hafa verið gerður samningur milli ráðuneyta og framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar, sérstaklega heilbrrn., en það kom fram á síðsta hér þingi, eins og hv. þm. þekkja, að heilbrrn. hafði hugsað sér að standa ögn öðruvísi að framkvæmdum en þingmenn almennt höfðu búist við þannig að á vegum ráðuneytisins sjálfs væri staðið fyrir framkvæmdum í staðinn fyrir að framkvæmdadeildin sæi um þær. Ég tel að skýra og góða löggjöf um opinberar framkvæmdir þurfi til að taka á þessu þannig að það sé ekki þeirri hendingu háð hverjir veljast til þess að verða ráðherrar hvernig staðið er að þessum málum.
    Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um langtímaáætlanagerð, það kunni að vera erfitt að gera áætlun til langs tíma um byggingarframkvæmdir, þá er það alveg rétt og ég tek undir það, það er mun erfiðara og vandasamara en að taka á hinum stærri viðfangsefnum, svo sem framkvæmdum við vegagerð og hafnargerð. En ég tel þó að þarna þurfi að skapa ákveðinn ramma um þær framkvæmdir sem ríkið ætlar sér að fara í á sviði opinberra bygginga og það sé líka liður í því að hafa stjórn á útgjöldum ríkisins, bæði til nýframkvæmda og ekki síður viðhalds.
    Einnig var mjög athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að það sé oft afstaða til opinberra framkvæmda að ekki þurfi að spara. Þetta vill vissulega liggja í landi og ber auðvitað að harma en með því að í lögum um opinberar framkvæmdir sé ákvæði um að áður en farið er út í framkvæmdir skuli gera sér grein fyrir því í hvaða kostnaðarflokki viðkomandi bygging eigi að vera og það sé val fyrir fram hvort hún eigi að vera dýr eða ódýr eða allt þar á milli, þá er hægt að fjalla um þetta á undirbúningsstigi og er ófært annað en að það sé sniðinn nokkuð þröngur stakkur þeim sem taka ákvarðanir um opinberar framkvæmdir þannig að það sé ekki eilíflega valinn dýrasti kosturinn.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en þakka undirtektir og vænti þess að tillagan fái greiðan gang í gegnum þingið og vonast til þess að í þeirri nefnd sem fjallar um tillöguna verði hægt að kalla til aðila sem gætu veitt fyllri upplýsingar um framkvæmd á löggjöf um opinberar framkvæmdir.