Fordæmisgildi dóms um innflutning á skinku

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:37:35 (694)

[13:37]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. fjmrh. og það er reyndar einnig gott að hæstv. landbrh. er hér.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. um fordæmisgildi þess dóms sem fallinn er í héraðsdómi Reykjavíkur í máli Hagkaupa gegn landbrh. og fjmrh., í skinkumálinu svonefnda, gagnvart þeirri ákvörðun utanrrh. að leyfa innflutning á sambærilegri vöru, kalkúnalæri mun það hafa verið, í gegnum Keflavíkurflugvöll skömmu síðar. Er ekki óhjákvæmilegt að líta svo á að með dómnum sé það staðfest að ákvörðun utanrrh. hafi verið ólögmæt þar sem dómurinn sýknar landbrh. og fjmrh. með öllu af því að hafa brotið lög með því að neita að tollafgreiða umrædda skinku?
    Í öðru lagi: Mun þessi niðurstaða málsins hafa í för með sér að fjmrh. sem yfirmaður Tollgæslunnar aðhafist frekar gagnvart þessu máli þegar þessi ólögmæti varningur á grundvelli ákvörðunar utanrrh. kom inn í landið?
    Ég vil í þriðja lagi spyrja hæstv. fjmrh. hvort eftirköst verði af þeirri niðurstöðu dómsins að fallast á mótmæli stefndu í málinu, sem voru landbrh. og fjmrh., við því að af hálfu stefnanda voru lögð fram sem sönnunargögn í réttinum lögfræðilegar álitsgerðir og greinargerðir frá utanrrn. sem höfðu nær einvörðungu að geyma lögfræðilegt álit starfsmanna í því ráðuneyti. Þessu mótmæltu stefndu og dómurinn fellst á þau mótmæli. Ég spyr hvort þetta ráðuneyti muni jafnframt aðhafast eitthvað í framhaldi af þessu? ( Gripið fram í: Það er dómsmrh. sem á að svara þessu.)