Fordæmisgildi dóms um innflutning á skinku

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:43:46 (697)


[13:43]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Það er nánast engu við að bæta, öðru en því að tollgæslan á Keflavíkurflugvelli, rétt eins og tollgæsla annars staðar á landinu, lýtur auðvitað lögum. Það gilda sömu lög um land allt og það er ríkistollstjóraembættið sem samkvæmt lögum á að sjá um að það séu samræmdar reglur í gangi. Þannig er farið að í þessu landi.
    Varðandi álitin þá má ekki misskilja það að það sé eitthvert stórmál að hafa lagt þessi gögn fram í dómnum. Þetta er munnlegur málflutningur og þess vegna er ekki heimilt að leggja fram með skriflegum hætti gögn í þessu máli. Um það held ég snýst orðalagið í forsendum dómsins. Það snýst ekki um það að þetta hafi verið eitthvað vont álit eða að utanrrh. hafi ekki mátt leita sér álits eða mátt afhenda álitið þeim lögmanni sem stefndi eða var fulltrúi stefnanda í málinu heldur hitt að það væri um skriflegan málflutning að ræða, og það er ekki heimilt.