Virðisaukaskattur á flugfargjöld innan lands og ferðaþjónustu

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:51:33 (702)


[13:51]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. eru hans reikningar í sambandi við flugfargjöldin mjög einfaldir. Hann tekur ekki tillit til þess að aðstöðugjald, tryggingagjöld og ýmislegt annað hefur lækkað, sem ég út af fyrir sig skil þar sem hann leggur málið fyrir með þeim hætti að reyna að gera sem mest úr áhrifum þess að virðisaukaskatturinn verður lagður á flugfargjöldin. Það er auðvitað umræða sem er í samræmi við venjulega stjórnarandstöðuumræðu.
    Hitt liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að matarverð hefur farið lækkandi. Það hefur ýmislegt lækkað sem lýtur að ferðaþjónustu og nú er m.a. verið að ræða um það í tengslum við lækkun á matarskatti sem svo er kallaður um áramótin að lækka virðisaukaskattinn á útseldum matvælum á veitingastöðum sem auðvitað munar um.
    Ég vil líka geta þess að ég hef rætt sérstaklega um það við hv. þm. hvort hægt sé með einhverjum hætti að finna aðferð til þess að koma til móts við þau gistihús sem byggð voru á árinu 1992 til þess að draga úr þeim áhrifum sem virðisaukaskatturinn hefur á þau.