Endurskoðun laga um náttúruvernd

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:00:17 (707)


[14:00]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um að ef ég hefði áhuga á að bjóða henni út að borða mundi ég ekki gera það hér í þessu mikla fjölmenni. Ég er hins vegar alveg sammála þingmanninum um að það hefur verið illa farið með góðan tíma nefndarinnar. Þegar ég kom sem ráðherra í ráðuneytið, þá lágu fyrir þessi drög frá formanni nefndarinnar. Ég las þau og komst að raun um að þar var allt annað að finna en nefndin hafði verið sett niður til þess að fjalla um. Ég gekk síðar úr skugga um að svo var með því að ræða við nokkra nefndarmenn, að vísu ekki hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur.
    Virðulegi forseti. Ég gerði mér grein fyrir því að það þurfti að breyta þessum lögum og forveri minn hafði ætlað sér að fá frv. frá nefndinni fyrir ári síðan. Það sem lá fyrir frá formanni nefndarinnar fjallaði einungis um fyrstu 15 greinar laganna þannig að með einfaldri þríliðu komst ég að því að með sama áframhaldi mundi formaður nefndarinnar sjá til þess að þessu yrði lokið einhvern tíma undir aldamót. Þá verð ég ekki ráðherra og ég tel að það þurfi að breyta lögunum miklu fyrr.