Endurskoðun laga um náttúruvernd

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:02:24 (709)


[14:02]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég fellst á það eins og ég gerði áðan að þarna hefur atgervi og tíma verið á glæ kastað, en það var m.a. til þess að forða nefndinni frá því að eyða mörgum árum í viðbót til þess að véla um afganginn á frv. að ég tók þessa ákvörðun. Það kann vel að vera að það hafi verið hastarlega gert, en ég mat það svo að það væri alveg út í hött að nefndinni tækist að ljúka sínu starfi á tveimur dögum eftir að hún var þegar komin heilt ár fram yfir áætlaðan lokatíma. Ég gerði mér líka grein fyrir því að það er mjög nauðsynlegt að breyta lögunum, laga Náttúruverndarráð og stjórnskipun náttúruverndarmála að hinu nýja umhvrn. Ég segi það hreinskilnislega, að ég hef ekki tíma til þess að bíða annað ár. Síðan er það líka ljóst af bréfum sem mér hafa borist frá mönnum í nefndinni að þau drög sem formaðurinn sendi virðast hafa fjallað um margt annað og yfirleitt flest annað en það sem rætt var í nefndinni. Það hef ég samkvæmt tveimur bréfkornum sem mér hafa borist frá mönnum sem í nefndinni voru. En auðvitað vænti ég þess að fá tækifæri til þess að ræða við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um náttúruverndarmál, jafnvel yfir borðum.