Sameining sjúkrahúsa í Reykjavík

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:04:56 (711)

[14:04]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Spurt er um tímasetningar og vinnu við verkaskiptamál sjúkrahúsa í Reykjavík sem að sönnu eru mjög til umfjöllunar, ekki síst nú á tímum þegar ákveðin viðhorfsbreyting hefur orðið hjá formlegum eigendum Landakotsspítala.
    Verkaskiptanefnd hefur verið að störfum frá því í febrúar og formaður hennar, ráðuneytisstjórinn í heilbrrn., hefur sagt mér að sú vinna sé á lokastigi og vænta megi tillagna frá þeirri nefnd á næstu tveimur vikum. Í kjölfar þeirrar vinnu þurfa sannarlega að liggja mjög fljótt fyrir tillögur um framtíðarskipan þessara mála. Ég hygg þó að nokkuð ljóst sé að stórar kerfisbreytingar geta ekki átt sér stað innan nokkurra vikna eða mánaða. Þær þurfa eilítið lengri tíma, misjafnlega langan tíma þó. Sum mál eru e.t.v. betur undirbúin en önnur þannig að þau megi ganga hraðar fram. Með öðrum orðum: Já. Svarið er það að til þessa hlýtur að verða tekið tillit við endanlega gerð fjárlaga nú í desember.