Sameining sjúkrahúsa í Reykjavík

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:06:27 (712)


[14:06]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég fæ hins vegar ekki annað séð en að þessar upplýsingar segi okkur í fjárln. aðeins það að þær tillögur sem fyrir liggja í frv. til fjárlaga séu annaðhvort gjörsamlega óraunhæfar ef fyrir dyrum er að sameina einhver sjúkrahúsanna í Reykjavík eða þá að þau eru raunhæf miðað við óbreytt ástand. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji nokkra möguleika á því að einhver sameining fari fram á næsta fjárlagaári, þ.e. 1994, því að ég tel að það sé afar nauðsynlegt að við vitum það áður en lengra er haldið. Ég get hins vegar verið sammála honum um að það sé næstum því vonlaust vegna þess að það er auðvitað hárrétt að það er ekki hlaupið að því að sameina stór og gróin sjúkrahús. Því miður er búið að gera þar hluti sem betur hefðu verið látnir bíða þar til endanleg ákvörðun hefði verið tekin.
    Ég þakka fyrir svörin. En ég vil fá það skýrt hvort engin ástæða er til að vera að velta þessum sameiningarmálum fyrir sér við gerð fjárlaga næsta árs.